Innherji

Þróun hrávöruverðs varpar ljósi á mikilvægi raforkuframleiðslu á Íslandi

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Háspennilínur norðan Skjaldbreiðar.
Háspennilínur norðan Skjaldbreiðar. VÍSIR/VILHELM

Stórkostlegar hækkanir á hrávöruverði eru áminning um mikilvægi raforkuframleiðslu hér á landi og þær varpa jafnframt ljósi á það hversu mikill ávinningur felst í því að framleiða íslenskt eldsneyti sem knýr farartæki. Þetta segir Ketill Sigurjónsson, sérfræðingur í orkumálum og framkvæmdastjóri vindorkufyrirtækisins Zephyr Iceland.

Innrás Rússa í Úkraínu hefur haft víðtæk áhrif á hrávöruverð, ekki síst orkuverð. Rússland er þriðja stærsta olíuframleiðsluríki heims og hefur olíuverð hækkað um u.þ.b. 40 prósent frá því að stríðsátökin hófust undir lok febrúar. Þá fær Evrópa um 40 prósent af sínu jarðgasi frá Rússum og rúmlega fjórðung af olíunni.

Raforkuverð hefur einnig hækkað töluvert upp á síðkastið og fjöldi evrópskra heimila, sem reiðir sig á rafmagn, jarðgas eða olíu til húskyndingar, horfir því fram á verulega aukningu í útgjöldum. Að þessu leyti eru íslensk heimili í mun betri stöðu.

„Ísland af aflokaður raforkumarkaður. Hann er ekki tengdur við Evrópu og verðhækkanir á raforku utan Íslands hafa því ekki bein áhrif á raforkuverð hér,“ segir Ketill. 

„Enda er það svo að ef maður skoðar almennt raforkuverð á Íslandi síðustu árin og áratugina þá er það býsna stöðugt alveg sama hvað gengur á í heiminum. Raforkuverð til stóriðju getur þó sveiflast töluvert því það er í mörgum tilvikum tengt við verð á framleiðsluafurðum stóriðjufyrirtækjanna“

Í ársuppgjöri Landsvirkjunar kom fram að meðalverð inn á heildsölumarkað til heimila og smærri fyrirtækja hefði numið 5,3 kr/kWst á síðasta ári og stóð það í stað milli ára. og hækkaði ekki frá fyrra. Meðalverð til stórnotenda hækkaði hins vegar um 55 prósent og var 32,7 USD/MWst.

„Það er ekki einungis raforkuverð sem hefur hækkað víða erlendis á síðustu misserum heldur einnig álverð og Ísland flytur í raun út raforku í gegnum álið. Orkufyrirtæki eins og Landsvirkjun, HS Orka og Orkuveita Reykjavíkur, sem hafa gert álverðstengda samninga við stóriðjufyrirtæki, hafa því fengið hærra verð fyrir rafmagnið,“ segir Ketill.

Það sem bætist ofan á þróunina eða verðhækkunina í fyrra er hið ömurlega stríð í Úkraínu. Atburðirnir þar eru líklegir til að halda hrávöruverði, sérstaklega olíuverði, háu.

Það endurspeglaðist að einhverju leyti í síðasta ársreikningi Landsvirkjunar. Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði, sem er sá mælikvarði sem Landsvirkjun lítur helst til þegar afkoma fyrirtækisins er skoðuð, nam 227 milljónum Bandaríkjadala í fyrra og jókst um 64 prósent milli ára.

Bætta afkomu mátti alfarið rekja til hækkunar á tekjum af sölu til stórnotenda og það er útlit fyrir að orkufyrirtækin muni áfram búa við hagfelld rekstrarskilyrði í ár.

„Það sem bætist ofan á þróunina eða verðhækkunina í fyrra er hið ömurlega stríð í Úkraínu,“ útskýrir Ketill. „Atburðirnir þar eru líklegir til að halda hrávöruverði, sérstaklega olíuverði, háu. Og mikil hækkun á olíu skilar sér oftast í hækkun á hrávörum eins og áli, stáli, járni o.s.frv.“

Eftir að hafa náð botni í 1.461 Bandaríkjadal í maí 2020 hefur álverð hækkað verulega. Það stóð í 2.818 dölum í byrjun þessa árs og hefur nú hækkað í um 3.500 dali. Auknar tekjur orkufyrirtækja í eigu íslenska ríkisins og sveitarfélaga vegna álverðshækkana munu þannig „dempa“ högg olíuverðshækkana á þjóðarbúið að sögn Ketils.

„Hinn venjulegi Íslendingur finnur þó lítið fyrir bættum hag orkufyrirtækja. Hann finnur miklu fremur fyrir högginu vegna ástandsins núna á alþjóðlegum orkumörkuðum, þ.e. hækkun bensínverðs og áhrifum hrávöruverðshækkana á verðlag og vísitölutengd lán,“ segir Ketill.

„Um leið og þetta minnir okkur á gríðarlegt mikilvægi raforkuframleiðslunnar hér, þá er ástandið núna líka mjög góð áminning um það hversu stórkostlegt það væri ef við myndum ekki bara nýta grænu orkuauðlindirnar til að framleiða rafmagn, heldur líka íslenskt eldsneyti til að knýja bílaflotann og síðar líka skip og jafnvel flugvélar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×