Þormóður var handtekinn eftir að lögregla kom á vettvang, en þá héldu fjórir dyraverðir honum niðri og var hann mjög æstur. Hafði hann þá veitt dyraverðinum hnefahögg, en fyrir dómi sagðist dyravörðurinn hafa kannast við Þormóð. Hann hafi vitað að „hann væri stór maður og því væri ástæða til að hemja hann“ þar sem hann hafi verið mjög æstur.
Þegar lögregla kom á vettvang veitti Þormóður mikla mótspyrnu við handtöku og fylgdi ekki fyrirmælum. Segir í dómi Héraðsdóms að hann hafi meðal annars rifið í hönd lögreglukonu þegar hún reyndi að losa hægri hönd hans og sýndi hann ógnandi tilburði gagnvart annarri, líkt og hann hafi ætlað að skalla hana.
Landsréttur féllst ekki á að háttsemi hans hefði réttlæst af neyðarvörn. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að Þormóður hefði ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi. Á hinn bóginn hefði atlaga hans verið hættuleg þar sem hún hefði beinst að höfði dyravarðarins.
Þá væri ekki unnt að líta svo á að líkamsárásin hefði verið unnin í áflogum eða átökum, sem hefði heimilað refsilækkun eða að fella refsingu niður. Enn fremur var vísað til þess að óútskýrðar tafir hefðu orðið á meðferð málsins hjá lögreglu sem Þormóði yrði ekki kennt um. Refsing hans var ákveðin fangelsi í 30 daga en fullnustu refsingarinnar frestað skilorðsbundið í tvö ár.