Sólveig Anna Jónsdóttir fékk í gær meirihluta atkvæða í kjöri til formamns Eflingar. Óhætt er að segja að kosningabaráttan hafi verið hörð. Í sigurræðu sinni í gærkvöldi á Barion á Granda sagði Sólveig Anna að hún hefði aldrei orðið vitni af jafn hatrammri kosningabaráttu, og vísaði þá til andstæðinga sinna.
„En okkur tókst þetta og við erum búin að vinna sigur í þessum kosningum. Ég vil að við tökum smá tíma til að meðtaka það að eftir allt sem á hefur gengið, allan þann trylling sem á hefur gengið, þá tókst okkur að fá samþykki félagsfólks Eflingar fyrir því að við á Baráttulistanum eigum að fá að stýra efnahagslegri réttlætisbaráttu verka- og láglaunafólks á höfuðborgarsvæðinu,“ sagði hún við mikinn fögnuð viðstaddra.
Andstæðingarnir sem Sólveig Anna vísar til eru meðal annars fyrrverandi og núverandi starfsmenn á skrifstofu Eflingar sem hafa hvorki borið henni né Viðari Þorsteinssyni, fyrrverandi framkvæmadstjóra Eflingar, vel söguna. Mætti álykta sem svo að starfsmenn á skrifstofu væru einhverjir uggandi yfir niðurstöðu gærkvöldsins þó hugur félagsmanna hafi verið skýr.
Listi Sólveig Önnu hlaut 52 prósnet atkvæða en A-listi uppstillingarnefndar með Ólöfu Helgu Adolfsdóttur sem formannsefni hlaut 37 prósent. Kjörsókn var um 15 prósent sem er talsvert meiri en fyrir fjórum árum þegar Sólveig var kjörin í formaður.
Linda Dröfn Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Eflingar, segir í samtali við Vísi að niðurstöður gærkvöldsins hafi ekki verið í aðalhlutverki á fundinum í morgun.
„Við komum saman og áttum samverustund. Minntum hvert annað á hvað það er mikil hugsjón í okkar starfi, sem útskýrir kannski hitann sem hefur verið,“ segir Linda Dröfn. Starfsfólk á skrifstofunni starfi með hjartanu fyrir félagsmenn og þau hafi minnt sig á það í morgun, hve þjónustan sem félagið veiti sé mikilvæg fyrir fólkið.
„Það er það sem þetta snýst allt um.“
Nýr formaður tekur við á aðalfundi Eflingar sem Linda segir að fari venjulega fram í apríl.