Sting bætist þar með í hóp fjölda heimsþekktra tónlistarmanna sem gert hafa áþekka samninga við útgáfufyrirtæki og fjárfestingafélög. Þannig hefur rétturinn að tónlist David Bowie, Fleetwood Mac, Tinu Turner, Bruce Springsteen, Bob Dylan, Neil Young, David Guetta og Shakiru verið seldur með þessum hætti á síðustu mánuðum.
Sting hefur á ferli sínum samið og gefið út fjölda þekktra laga, ýmist undir eigin nafni eða með The Police, þeirra á meðal Every Breath You Take, Roxanne, Englishman in New York, Desert Rose og Fields of Gold.
Hinn sjötugi Sting hefur á ferli sínum unnið til sautján Grammy-verðlauna og þriggja Brit-verðlauna.
Í frétt BBC er haft eftir Sting að það sé honum mjög mikilvægt að lagasafn sitt eigi sér heimili þar sem komið sé fram við það af virðingu og að það sé metið. Ekki einungis til að lögin haldi áfram að ná til eldri aðdáenda en einnig til að hægt sé að ná til nýrra hlustenda. Á ferli sínum hefur Sting lengst af verið á samningi hjá Universal.
Sting, sem heitir Gordon Sumner, var söngvari, bassaleikari og helsti lagasmiður The Police undir lok áttunda áratugarins og þeim níunda, áður en hann hóf sólóferil.