Í fyrradag birti Marel uppgjör fyrir fjórða ársfjórðung sem sýndi verulegan vöxt í pöntunum á milli ára. Pantanir Marel á fjórða ársfjórðungi námu rétt rúmlega 400 milljónum evra og aukningin milli ára, 25 prósent, var talsvert umfram spár greinenda. Pantanir yfir allt árið 2021 námu 1,5 milljörðum evra og aukningin milli ára um 22 prósentum. Þetta var metár í pöntunum en Árni Oddur segir þrjá þætti knýja kaupvilja viðskiptavina Marel.
„Í fyrsta lagi er vöntun á starfsfólki, laun í verksmiðjum hafa hækkað verulega og veltuhraði starfsfólks aukist. Til að geta haldið stöðugri vinnslu gangandi er sjálfvirknivæðing orðin mun ákjósanlegri kostur,“ segir Árni Oddur.
Annar þáttur var breytt kauphegðun neytenda sem til dæmis versla sífellt meira á netinu. Hann segir að framleiðendur þurfi að hafa sveigjanlegan rekstur og innleiða stafrænar lausnir til þess að geta brugðist við örum breytingum á kauphegðun neytenda í gegnum mismunandi dreifileiðir, svo sem netverslanir, veitingarekstur og stórmarkaði.
„Loks er það aukin áhersla á sjálfbærni. Allir okkar stærstu viðskiptavinir hafa sett sér sjálfbærnimarkmið, t.d. fullan rekjanleika á afurðum og minni notkun á vatni og rafmagni. Marel er með hugbúnaðarlausnir sem gera framleiðendum kleift að fá lifandi gögn sem styðja við mælanleg markmið þeirra í átt að aukinni sjálfbærni, sem skilar sér svo í hagstæðari kjörum með grænni fjármögnun.“
Tekjur Marel á síðasta ársfjórðungi 2021 námu rúmlega 367 milljónum evra, jafnvirði um 53 milljarða íslenskra króna, og jukust um nærri sjö prósent miðað við fjórða ársfjórðung 2020. Hagnaðurinn nam 28,5 milljónum evra, og lækkaði aðeins á milli ára, en heilt yfir var uppgjör félagsins í línu við meðalspár greinenda. Sé litið yfir allt árið í fyrra námu tekjur 1,4 milljörðum evra og jukust um rétt tæplega 10 prósent.
Hafa beðið með að verðleggja bresti í aðfangakeðjunni
Eftir birtingu uppgjörsins lækkuðu hlutabréf Marel um 1,2 prósent í 1,7 milljarða króna veltu í Kauphöllinni. Framlegð Marel hefur átt undir högg að sækja og þrátt fyrir að batna lítillega á síðasta fjórðungi var hún þó minni en spár greinenda gerðu ráð fyrir. Á árinu 2021 í heild sinni var framlegð (e. gross profit) fyrir sölu-, stjórnunar- og nýsköpunarkostnað 36,6 prósent af tekjum sem er undir 40 prósenta rekstrarmarkmiði fyrirtækisins.
„Áður en við fundum fyrir brestum í virðiskeðjunni var framlegðin í um 39 prósentum. Núna erum við með betri samsetningu í innflæði pantana og betri pantanabók. Það er sjálfsögð krafa af okkar hálfu að fara með hana í 40 prósent fyrir árið 2023,“ segir Árni Oddur.
Marel ætlar að ná markmiðinu með aukinni sölu, betri samsetningu pantana og skilvirkari verðlagningu. En tafir og verðhækkanir í aðfangakeðjunni, sem eru utan áhrifasviðs fyrirtækisins, hafa að sögn Árna Odds haft í för með sér „dulinn kostnað“ upp á 2 prósent af veltu og munu áfram lita afkomu þess á fyrri árshluta 2022.
„Ef við horfum til stærri verkefna sem taka frá samningi til afhendingar kannski 9 til 18 mánuði, og íhlutir sem eiga berast á mánuði tvö berast ekki fyrr en á mánuði fjögur, þá þarf yfirvinnu til að skila verkinu á réttum tíma,“ segir Árni Oddur. Hann segist eiga von á því að þessi kostnaður gangi til baka strax á seinni hluta þessa árs.
„Ef ekki, þá þarf að verðleggja það inn með virkri verðlagningu. En það sem skiptir mestu máli er að halda ótrauð áfram með stór umbreytingaverkefni sem munu styðja frekari vöxt og sveigjanleika í rekstri. Ef brestir í aðfangakeðjum verða þrálátir verðum við hlutfallslega í góðri stöðu miðað við keppinauta okkar, en víðtækt sölu- og þjónustunet okkar um heim allan og sterkir innviðir skapa okkur forskot.“
Ef brestir í aðfangakeðjum verða þrálátir verðum við hlutfallslega í góðri stöðu miðað við keppinauta okkar
Marel hefur að undanförnu varið töluverðu fjármagni í uppbyggingu á sölu- og þjónustuneti sínu. Á árinu 2021 nam stjórnun- og sölukostnaður 19,4 prósent af tekjum og er það nokkuð yfir 18 prósenta markmiði fyrirtækisins.
„Fyrir rúmu ári síðan, í miðjum heimsfaraldri, tókum við þá djörfu ákvörðun að stíga á bensíngjöfina með því að ráða meira af sölu- og þjónustufólki,“ útskýrir Árni Oddur.
„Sölu- og markaðskostnaður hefur því hækkað um 2 prósent af tekjum en ef þú skoðar hann í samhengi við pantanir þá erum við innan markmiða. Við fórum viljandi af stað á undan vextinum. Það er engin spurning í okkar huga um að við munum ná 2023 rekstrarmarkmiði okkar um að vera með sölu- og stjórnunarkostnað í um 18 prósent af tekjum.“
Hóflegri verðlagning skapar tækifæri á stærri yfirtökum
Í uppgjörstilkynningu Marel kom fram að fyrirtækið standi við markmið sín um 12 prósenta árlegan meðalvöxt á árunum 2017-2026 og tekur það fram að vöxturinn frá 2017-2021 hafi numið 7 prósent að meðaltali. Vöxturinn frá 2022-2026, bæði innri og ytri vöxtur, þarf því að nema um 16 prósentum á ári til þess að félagið nái markmiðum sínum.
„Markmiðið er vissulega metnaðarfullt en við stefnum ótrauð á það í krafti nýsköpunar, markaðsóknar og ytri vaxtar. Markaðsaðstæður, staða fyrirtækisins og fjárhagsstyrkur þess gera okkur nú kleift að ráðast í stærri yfirtökur til að knýja fram áframhaldandi vöxt og virðisaukningu,“ segir Árni Oddur.
Nú líður okkur vel með að fara af stað. Við erum vel undirbúin, með firnasterkan fjárhag og langtímafjármögnun
„Í dag eru minni sveiflur á fjármálamörkuðum, verðlagning er hóflegri og þrengra er um fjármögnun almennt miðað við nýliðið ár, en þá áttum við nóg með að sinna okkar rekstri og viðskiptavinum í heimsfaraldrinum. Nú líður okkur vel með að fara af stað. Við erum vel undirbúin, með firnasterkan fjárhag og langtímafjármögnun, og yfirtökur verða í samræmi við skýra vaxtarsýn.“
Á síðasta ári var gengið frá kaupum á PMJ, alþjóðlegum framleiðanda hátæknilausna fyrir vinnslu á andakjöti, og síðan Völku, íslensku hátæknifyrirtæki sem framleiðir fiskvinnslulausnir fyrir hvítfisk og lax. Þá var greint frá því í uppgjörstilkynningunni í fyrradag að Marel hefði keypt eftirstandandi 50 prósenta hlut í Curio, íslenskum framleiðanda hátækni fiskvinnsluvéla fyrir frumvinnslu hvítfisks.