Innherji

Nefco eignast hlut í banka Margeirs í Úkraínu

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Margeir Pétursson keypti Bank Lviv árið 2005 og átti bankann að fullu til ársins 2018.
Margeir Pétursson keypti Bank Lviv árið 2005 og átti bankann að fullu til ársins 2018. Mynd/Bank Lviv

Norræna umhverfisfjármögnunarfélagið (Nefco) hefur eignast tæplega 14 prósenta hlut í úkraínska bankanum Bank Lviv, sem er að stórum hluta í eigu Margeirs Péturssonar, stórmeistara í skák og stofnanda MP banka.

Í tilkynningu sem Nefco birti í dag kemur fram að félagið hafi tekið þátt í hlutafjáraukningu upp á 8,4 milljónir evra, jafnvirði 1,2 milljarða króna, sem er einkum ætlað að styðja við græna útlánastarfsemi bankans í Úkraínu. Nefo og Bank Lviv hafa átt í samstarfi um lánveitingar til orkusparandi verkefna í Úkraínu frá árinu 2008.

Margeir Pétursson, stórmeistari í skák og stofnandi MP banka, sem er einn af forverum Kviku. 

Margeir keypti Bank Lviv árið 2005 og átti bankann að fullu til ársins 2018 þegar svissneska eignastýringarfélagið responsAbility keypti 51 prósenta hlut í bankanum. Eftir innkomu Nefco fer norræna félagið með tæpan 14 prósenta hlut, Margeir með rúm 37 prósent og svissneska félagið með tæp 49 prósent.

Bank Lviv hefur vaxið hratt á undanförnum árum. Eignir bankans nema 240 milljónum Bandaríkjadala, jafnvirði 31 milljarðs króna og lánasafnið 169 milljónum dala, jafnvirði 24,4 milljarða króna. Til samanburðar námu eignir bankans 64 milljónum dala í lok árs 2017 og lánasafnið 40 milljónum.

Bankinn, sem rekur alls 19 útibú í vesturhluta Úkraínu og Kænugarði (Kíev), sérhæfir sig í lánum til lítilla og meðalstjórra fyrirtækja, landbúnaðar og orkusparandi verkefna.

Nefco, sem var stofnað árið 1990 af Norðurlöndunum fimm, hefur það markmið að fjármagna norrænar lausnir sem flýta fyrir grænum umskiptum. Félagið er á meðal hluthafa í íslenska tæknifyrirtækinu Carbon Recycling International, sem hefur þróað heildstæða tæknilausn til að framleiða metanól með endurvinnslu koltvísýrings.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×