Aron skoraði fjögur mörk í öruggum og frábærum 28-24 sigri Íslands. Hann tók undir það að erfitt væri að spila gegn Portúgölum sem kjósa að spila afar hægan leik.
„Við töluðum líka um það í hálfleik, 14-10 yfir, að 14 mörk í svona tempó leik væri bara mikið. Við máttum ekki láta hraðann blekkja okkur. Við skorum tæp 30 mörk í svona tempói. Við ætluðum reyndar að keyra aðeins upp hraðann í seinni hálfleik og mér fannst það ekki ganga alveg nógu vel, en við eigum það þá bara inni og það fór minni orka í þennan leik,“ sagði Aron.
Þeir Gísli Þorgeir Kristjánsson og Ómar Ingi Magnússon virtust njóta sín afar vel í kvöld og Aroni líst vel á sóknarleik íslenska liðsins:
„Mjög vel. Ég held að þetta henti okkur gríðarlega vel og þetta virkaði alla vega mjög vel á þá. Mér fannst við alltaf vera í færum og það var aldrei eitthvað vesen sóknarlega. Það var þá bara í mesta lagi 1-2 sóknir. Mér fannst við eiga svör við þeirra varnarleik frá A til Ö.“
Ísland gaf svo engin færi á sér á lokakaflanum, þegar Portúgal reyndi að hleypa spennu í leikinn:
„Við erum búnir að vera saman núna í nokkur ár, menn orðnir árinu eldri, og það er bara komin reynsla í þetta lið. Við sýndum það síðustu tíu mínúturnar að við vorum aldrei að fara að tapa þessu. Við vorum bara „cocky“ og þeir áttu ekki séns,“ sagði Aron við Vísi í Búdapest í kvöld.