Á myndbandinu hér að neðan má sjá aðstæður á Háreksstaðaleið á Jökuldalsheiði í gærkvöldi. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu náði bílstjóri á kranabíl myndbandinu að neðan og fylgdist með því sem fram fór. Litlu munaði að árekstur yrði en fólksbílar komu úr hinni áttinni á sama tíma og flutningabíllinn rásaði á veginum.
Linda B. Gunnlaugsdóttir, framkvæmdastjóri Smyril Line, segist hafa fengið myndbandið sent úr mörgum áttum í gær og um leið hafi verið farið í að gera greiningu á málinu. Flutningabíllinn hafi verið á negldum dekkjum og allt eins og það átti að vera. Vagninn hafi auk þess verið á keðjum.
Veðuraðstæður hafi verið kannaðar fyrir brottför en svo hafi vindhviðurnar á leiðinni orðið svakalegar.
„Það kemur svakaleg vindhviða ofan í mikla hálku og hann ræður ekkert við neitt. Það var enginn séns að rétta vagninn við,“ segir Linda. Um algjörlega óviðráðanlegar aðstæður hafi verið að ræða en sem betur fer hafi einn reyndasti bílstjóri landsins verið við stýri.
Flutningabíllinn sé verulega stór og taki á sig mikinn vind. Hún þakkar fyrir að ekki hafi orðið nein slys á fólki. Smyril Line leggi mikið upp úr að skoða aðstæður fyrir flutninga og raunar sé legið yfir veðurspá á akstursdeildinni.
„Við bíðum af okkur alls kyns veður,“ segir Linda. Þessar hviður hafi ekki gert boð á undan sér.