Mbl.is greinir frá þessu og vísar í tölvupóst sem stjórn Íseyjar sendi félagsmönnum samvinnufélagsins Auðhumlu, sem á meirihluta í Ísey útflutningi og Mjólkursamsölunni.
Greint var frá því fyrir helgi að Ari væri kominn í tímabundið leyfi vegna ásakana um kynferðisofbeldi. Óskaði hann sjálfur eftir því að fara í leyfi, að sögn stjórnarformanns.
Umræddar ásakanir komu fram í hlaðvarpsþættinum Eigin konur þar sem Vítalía Lazareva, 24 ára gömul kona, lýsti kynferðisofbeldi sem hún sagðist hafa verið beitt í sumarbústaðarferð í desember 2020. Vítalía tjáði sig fyrst um meint ofbeldi í röð færslna á samfélagsmiðlum þar sem hún nefndi Ara í þessu samhengi ásamt þremur öðrum karlmönnum.
Fréttu af málinu í haust
„Við vissum af þessu strax í haust þegar þetta kom á samfélagsmiðlum og við tókum það mjög alvarlega. Þá var gert samkomulag við hann að ef það yrði eitthvað meira úr þessu, kærur eða eitthvað slíkt þá myndi hann óska eftir leyfi,“ sagði Elín Margrét Stefánsdóttir, stjórnarformaður Íseyjar útflutnings, í samtali við fréttastofu á fimmtudag.
Einar Einarsson, aðstoðarmaður Ara, hefur sinnt verkefnum hans á meðan hann var í leyfi. Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur Ari einnig stigið til hliðar sem formaður atvinnuveganefndar Sjálfstæðisflokksins.
Stjórnin taldi sér skylt að rifta ráðningarsamningnum
Fram kemur í tölvupóstinum frá stjórn Íseyjar útflutnings, sem mbl.is hefur undir höndum, að ónákvæmar upplýsingar hafi borist í lok október um meinta þátttöku Ara í „ósæmilegri kynferðislegri háttsemi gagnvart ungri konu í lok árs 2020.“
Stjórn félagsins hafi þá fundað oft um málið sem var enn til meðferðar þegar Vítalía steig fram í viðtali við Eddu Falak.
„Þær ásakanir sem nú eru komnar fram á hendur framkvæmdastjóra eru með þeim hætti að stjórn félagsins taldi sér skylt, að vel athuguðu máli, að segja upp ráðningarsamningnum við hann, með áskilnaði til riftunar síðar ef tilefni gefst til, með hliðsjón af hagsmunum félagsins, starfsfólks og viðskiptamönnum þess, og ekki síður meintum þolanda,“ segir í póstinum sem vísað er til í frétt mbl.is.
Fréttin hefur verið uppfærð.