Innlent

Játaði að hafa kveikt eld í bílageymslu við Engjasel

Eiður Þór Árnason skrifar
Allt tiltækt slökkvilið var kallað út.
Allt tiltækt slökkvilið var kallað út. Vísir

Lögreglan hefur upplýst mál þar sem eldur kviknaði í bílskýli við Engjasel 70-86 á annan í jólum. Þrír bílar brunnu þar inni og urðu miklar skemmdir urðu á bílageymslunni sökum elds og reyks.

Fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu að fyrir liggi játning manns um íkveikju og telst málið því vera upplýst. 

Engan sakaði í brunanum en allt tiltækt slökkvilið á höfuðborgarsvæðinu var kallað út vegna eldsins. Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði voru 26 bílar í bílakjallaranum. Talið er að sakborningur hafi kveikt í einum bíl og eldurinn hafi dreift sér í nálæga bíla.

„Við komum á staðinn, þá er mikill eldur þarna og nokkrir bílar sem voru þegar alelda þegar við komum á staðinn. Þarna myndaðist mikill hiti, mikill reykur þannig að mikið tjón á öðrum bílum sem voru þarna inni,“ sagði Vernharð Guðnason, deildarstjóri hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins um aðstæður á vettvangi í Bítinu á Bylgjunni 27. desember.

„Þegar bílar brenna þá er mikil orka sem að leysist út. Þarna var gríðarlegur hiti, tiltölulega lítil lofthæð. Hitinn kemst lítið í burtu og mikill svartur reykur sem er hættulegur vegna hitans og eiturefna sem í reyk eru gagnvart okkar fólki,“ bætti Vernharð við.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×