Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra bar höfuð og herðar yfir aðra ráðherra í nýrri ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur framan af þegar spurt var um væntingar til ráðherra, samkvæmt könnun Maskínu fyrir fréttastofuna sem gerð var dagana 15. til 28. desember.

35,8 prósent sögðust bera mestar væntingar til Willums, tæplega tuttugu prósent til Ásmundar Einars Daðasonar og forsætisráðherrann Katrín Jakobsdóttir var í þriðja sæti með 13,2 prósent. Aðrir ráðherrar voru með væntingar í eins stafs tölu.

Jón Gunnarsson var hins vegar á botninum því tæplega þrjátíu prósent sögðust bera minnstar væntingar til hans, 16,3 prósent báru minnstar væntingar til Bjarna Benediktssonar og tæplega sautján prósent til Guðmundar Inga Guðbrandssonar.

Staðan breyttist hins vegar eftir 22. desember þegar Willum Þór Þórsson kynnti fyrstu sóttvarnaaðgerðir sínar. Eftir það báru nítján prósent mestar væntingar til hans en Ásmundur Einar skaust upp væntingaskalann í 30,5 prósent. Katrín Jakbosdóttir var áfram á svipuðum slóðum með tæp þrettán prósent og aðrir í eins stafs tölum.

Staða Jóns Gunnarssonar með minnstar væntingar skánaði aðeins því eftir aðgerðirnar sögðust um 25 prósent bera minnstar væntingar til hans, Svandís Svavarsdóttir fer í annað sæti minnstra væntinga og Áslaug Arna í það þriðja.