Þuríður var gestur í nýjasta þættinum af Spjallið með Góðvild. Hún hryggbrotnaði og lamaðist fyrir neðan mitti þegar hún datt af hestbaki aðeins fertug. Síðan þá hefur hún starfað að málefnum hreyfihamlaðra og hefur verið formaður Öryrkjabandalagsins síðustu fjögur ár.
„Stuðningurinn er mjög takmarkaður eða enginn fannst mér, börnin mín fengu ekki áfallahjálp.“
Þuríður segir að hún hafi þarna strax séð hverju væri ábótavant.
„Það komu þarna einhver ár þar sem ég þurfti að átta mig á hlutunum og skilja aðstæðum ég væri, viðurkenna að ég teldist nú til fatlaðs fólks.“
Hún vildi að þetta verkefni hennar í lífinu yrði til góðs og skipti máli fyrir fleiri einstaklinga. Hún byrjaði fyrst á aðgengismálunum eftir að átta sig á öllum hindrununum í umhverfinu.
„Inni í Öryrkjabandalaginu eru 41 aðildarfélag. Við erum regnhlífarsamtök, hagsmunasamtök fatlaðs fólks og breiddin er mjög mikil.“
Nauðsynlegt að einfalda almannatryggingakerfið
Í viðtalinu ræðir Þuríður um skýrslu um stöðu fatlaðra einstaklinga, sem margir eru ósáttir með fjárhagslega stöðu sína.
„Þar kom í ljós að 80 prósent fatlaðs fólks á erfitt með að láta enda ná saman um hver einustu mánaðarmót.“
Hún segir mikilvægt að vinna að þessari stöðu.
„Ungt fatlað fólk sem að jafnvel hefur verið fatlað frá fæðingu að það fari ekki í gegnum lífið, eins og það er í dag, að það fari inn á ellilífeyrinn fátækt með engan lífeyrissjóð og verði mjög fátækir ellilífeyrisþegar. Við höfum verið að tala fyrir því að það þarf að einfalda almannatryggingakerfið með hagsmuni fatlaðs fólks að leiðarljósi. Það þarf að draga úr tekjuskerðingu og auka tækifæri fólks til þess að geta tekið þátt í atvinnu“
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.
Þættirnir Spjallið með Góðvild eru sýndir á Vísi Sjónvarp en einnig er hægt að hlusta á flestum hlaðvarpsstöðvum.
Verkefnið er afurð margra ára samstarfs Sigurðar Hólmars Jóhannessonar framkvæmdastjóra Góðvildar og Ágústu Fanneyjar Snorradóttur kvikmyndagerðarkonu og eiganda Mission Framleiðslu.
Þættirnir eru nýr vettvangur til að koma málefnum langveikra og fatlaðra barna á framfæri og auka í leiðinni sýnileika fyrir mikilvæg málefni. Hægt er að hafa samband við Sigurð og Ágústu Fanney vegna þáttanna í gegnum vefsíðuna godvild.is eða samfélagsmiðla félagsins. Með því að styrkja Góðvild þá ertu að styðja við langveik og fötluð börn á Íslandi. Styrktarreikningur 0301-26-660117, kennitala 6601172020.