Haukar unnu sjö marka sigur á Íslands- og bikarmeisturum KA/Þórs. Það gekk allt upp hjá Haukum í fyrri hálfleik. Yfirburðirnir voru ekki eins miklir í síðari hálfleik en lokatölur 34-27.
Það er óhætt að fullyrða að fyrri hálfleikurinn hafi verið það besta sem Haukar hafa sýnt á tímabilinu. Á sama tíma voru öll ljós kveikt og enginn heima í herbúðum KA/Þórs.
KA/Þór byrjaði leikinn betur og komst þremur mörkum yfir 1-4. Eftir það kom ótrúlegur viðsnúningur þar sem Haukar völtuðu yfir gestina í einu og öllu.
Frá því að vera 1-4 yfir rankaði KA/Þór við sér ellefu mörkum undir og staðan orðin 17-6. KA/Þór tapaði ellefu boltum í fyrri hálfleik. Martha Hermannsdóttir undirstrikaði afleiddan kafla KA/Þórs með ömurlegri vippu í víti sem Annika Friðheim Petersen las auðveldlega og greip.
Annika Friðheim Petersen, markmaður Hauka, var stórkostleg í fyrri hálfleik og varði 11 skot og var með 58 prósent markvörslu í fyrri hálfleik.
KA/Þór tókst aðeins að rétta úr kútnum og gerði síðustu þrjú mörk fyrri hálfleiks og var staðan 17-9 í hálfleik.
Klaufagangur KA/Þórs hélt áfram og voru heimakonur komnar tólf mörkum yfir þegar tæplega tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik.
KA/Þór náði upp smá leikgleði og minnkaði muninn í sex mörk þegar tæplega sex mínútur voru eftir af leiknum. Á þessum kafla var Gunnar Gunnarsson, þjálfari Hauka, byrjaður að nota hópinn meira en var fljótur að setja reyndari leikmenn inn á þegar gestirnir fóru að saxa á forskot Hauka.
Leikurinn endaði með sjö marka sigri Hauka 34-27.
Af hverju unnu Haukar?
Fyrri hálfleikur Hauka var frábær á báðum endum vallarins. Það kveikti í Haukum að lenda þremur mörkum undir í byrjun leiks og eftir það héldu þeim engin bönd.
Haukar skoruðu 17 mörk í fyrri hálfleik og var Annika Fríðheim Petersen að verja vel í markinu.
Í seinni hálfleik héldu heimakonur sjó og kláruðu leikinn sannfærandi.
Hverjar stóðu upp úr?
Annika Fríðheim Petersen, markmaður Hauka, átti frábæran leik. Annika varði sérstaklega vel í fyrri hálfleik og var með 58 prósent markvörslu í hálfleik. Það hægðist aðeins á henni í seinni hálfleik. Annika endaði á að verja 18 skot.
Elín Klara Þorkelsdóttir var allt í öllu á báðum endum vallarins. Elín Klara skoraði 7 mörk og tikkaði í flest öll box tölfræðinnar.
Þessi leikmaður 💥 Skilar allstaðar 📊 pic.twitter.com/f9tqlr8BI9
— HBStatz (@HBSstatz) December 11, 2021
Hvað gekk illa?
Sunna Guðrún Pétursdóttir, markmaður KA/Þórs, er í raun sú eina sem á ekki heima í þessum flokki.
Meistararnir áttu afleiddan leik. Fyrri hálfleikur liðsins var áberandi slakur. KA/Þór tapaði ellefu boltum í fyrri hálfleik.
Á fyrstu 28 mínútum leiksins skoraði KA/Þór aðeins sex mörk og þrjú af þeim mörkum úr vítum.
Hvað gerist næst?
Liðin eru komin í jólafrí og er næsti leikur 8. janúar. KA/Þór mætir Fram fyrir norðan klukkan 16:00. Á sama tíma mætast Afturelding og Haukar.