Fyrirtækið þróar nú nýja gerð af bóluefni sínu til að bregðast við hinu stökkbreytta omíkron-afbrigði. Vonast er til að nýja bóluefnið verði tilbúið á næstu hundrað dögum.
Pfizer stefnir á að verða búið að afhenda þrjá milljarða skammta af bóluefni sínu fyrir lok þessa árs og áætlar að framleiða fjóra milljarða til viðbótar á næsta ári.
Hlutabréfaverð Pfizer tekið hástökk
Útlit er fyrir að tekjur Pfizer af Comirnaty-bóluefninu nemi minnst 35 milljörðum Bandaríkjadala árið 2021. Samhliða því hefur hlutabréfaverð Pfizer hækkað verulega á þessu ári.
Hin ýmsu almannaheillafélög hafa gagnrýnt alþjóðleg lyfjafyrirtæki fyrir að hagnast á heimsfaraldrinum. Bourla segir aðalatriðið að bóluefnin hafi bjargað milljónum mannslífa og lyfjafyrirtækin hafi sparað heimshagkerfinu þúsundir milljarða Bandaríkjadala.
Bourla hafnar því alfarið í samtali við breska ríkisútvarpið BBC að Pfizer hafi okrað á heimsbyggðinni og segir að bóluefnið sé selt á verði stakrar máltíðar til ríkari landa. Þá sé skammturinn seldur án ágóða til láglaunalanda.
Sækjast eftir leyfi fyrir notkun bóluefnisins hjá undir fimm ára
Bóluefni Pfizer þarf að geyma við 70 gráður fyrir neðan frostmark og hefur það hamlað dreifingu þess í löndum með skerta heilbrigðisþjónustu.
Pfizer stefnir að því að gefa út nýja gerð á næstu vikum sem hægt verður að geyma í þrjá mánuði í ísskáp. Bourla telur að varan eigi eftir að breyta miklu fyrir Afríkulönd sunnan Sahara
Pfizer stendur nú fyrir rannsókn á virkni og öryggi bóluefnisins hjá börnum undir fimm ára aldri en bandarísk heilbrigðisyfirvöld leyfðu notkun þess hjá fimm til ellefu ára börnum í október.