Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar segir að kalt verði í veðri þar sem frost verði víða á bilinu núll til átta stig og kaldara inn til landsins. Þar sem kaldur vinur andar af hálendinu mældist til dæmis mesta frost í nótt á Hellu, rúmlega sextán stig.
„Í kvöld nálgast lægð úr suðvestri með vaxandi suðaustanátt og minnkandi frosti. Það gengur í hvassa suðaustanátt í nótt og slær líklega í storm á norðanverðu Snæfellsnesi. Snjókoma í fyrstu og skiptir fljótt yfir í rigningu á láglendi, en hægari vindur og úrkomulítið um norðaustanvert landið.
Flestir sofa versta veðrið af sér því í fyrramálið á morgun snýst hægari í suðvestanátt með skúrum, en það fer kólnandi með éljum seinni partinn.“

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á fimmtudag: Suðaustan 13-20 með snjókomu og síðar rigningu á láglendi, einkum sunnan- og vestanlands. Snýst í suðvestan 8-15 m/s með slydduéljum eða éljum síðdegis, en léttir til á Norðausturlandi. Hiti 0 til 5 stig.
Á föstudag: Hæg vestlæg eða breytileg átt og dálítil él, en víða bjartviðri um austanvert landið. Frost 0 til 10 stig, kaldast í innsveitum norðaustantil.
Á laugardag: Hæg breytileg átt og víða léttskýjað. Frost um land allt.
Á sunnudag: Hvöss suðaustanátt og dálítl rigning. Hiti 0 til 5 stig. Hægari vindur, skýjað og þurrt um norðaustanvert landið og vægt frost á þeim slóðum.
Á mánudag: Útlit fyrir suðaustlæga átt með dálítilli vætu, en þurrt norðanlands. Hiti kringum frostmark.
Á þriðjudag: Líkur á austlægri átt með stöku skúrum eða éljum en bjartviðri vestantil á landinu. Hiti breytist lítið.