Tónlist

Taylor Swift heldur áfram að toppa sig

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Beth Garrabrant tók myndirnar af Taylor Swift fyrir endurútgáfuna af RED. Rauði liturinn er auðvitað áberandi. 
Beth Garrabrant tók myndirnar af Taylor Swift fyrir endurútgáfuna af RED. Rauði liturinn er auðvitað áberandi.  Skjáskot/Instagram

Taylor Swift heldur sífellt áfram að gleðja aðdáendur sína með nýjum gullmolum. Í nótt gaf hún aftur út plötu sína Red, sem kom fyrst út árið 2012. Platan heitir núna RED (Taylor’s Version) og er hún enn betri en upprunalega útgáfan.

Á plötunni má meðal annars finna tíu mínútna upptöku af laginu All To Well. Þetta er hrá upprunaleg útgáfa sem Taylor tók fyrst upp áður en hún þurfti að stytta lagið og taka það upp aftur í hljóðveri og gera það að útvarpssmelli. Þessi upprunalega útgáfa var því hennar eign allan tímann og ekki útgáfunnar.

Þessi týnda gamla útgáfa er mun ítarlegri og er ýmislegt sem kemur fram í textanum sem hún hefur ekki talað um áður. Til dæmis að gaurinn hafði nú þegar hitt föður hennar á meðan á ástarævintýrinu stóð og að hann sveik hana og skrópaði í 21 árs afmælisveisluna hennar. Drama eins og það gerist best.

Hún setti internetið næstum því á hliðina með þessu öllu saman og hafa aðdáendur hennar um allan heim verið að hlusta á þetta allt saman í nótt. 

Textamyndband við þessa tíu mínútna útgáfu má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.

Í viðtali í Jimmy Kimmel í gær talaði Taylor meðal annars um tíu mínútna lagið. Þar sagði hún að þessi tíu mínútna útgáfa hafi næstum því ekki náðst á upptöku. Eftir að hún söng textann sinn í gegn kom upp spurningin: „Tókstu þetta nokkuð upp?“ Sem betur fer var svarið já og nú fá aðdáendur að heyra hennar útgáfu.  

Á miðnætti í kvöld kemur svo út á Youtube stuttmyndin All to well, sem Taylor skrifaði sjálf og leikstýrði.

Fyrir þá sem ekki vita af hverju Taylor Swift er að taka plöturnar sínar upp aftur, má lesa allt um höfundarréttarmálið hér og hér á Vísi. 

Taylor byrjaði á að gefa aftur út Fearless en nú var komið að RED. Fyrri útgáfa plötunnar RED innihélt sextán lög en í þessari útgáfu setti Taylor öll þrjátíu lögin sem hún vildi upprunalega hafa á plötunni. Röddin hennar hefur sjaldan hljómað betur en þrátt fyrir að áratugur sé liðinn frá ástarsorginni sem var innblásturinn að plötunni, á hún í engum erfiðleikum með að kafa aftur í þessar tilfinningar.

Það er auðvitað áhætta að endurútgefa klassík, en með því að tæta hana í sundur og bæta við aukalögum og lengri útgáfum þá tekst henni það fáránlega vel svona miðað við fyrstu hlustun.

Vissulega telja flestir að eldri maðurinn sem lögin fjalla um sé Jake Gyllenhal, en það skiptir í rauninni engu máli, það er aukaatriði. Aðdáendur söngkonunnar þurfa ekki að vita um hvern hún er að tala til þess að tengja við fallegu textana, um tárin og vonbrigðin.

Það eru ekki allir sem kæmust upp með að gefa út tíu mínútna og þrettán sekúndna langt lag, en það er eitthvað sem segir manni að aðdáendur Taylor Swift muni koma þessu lagi á topplistana og í útvarpsspilun í fullri lengd.

Hægt er að hlusta á plötuna RED (Taylor’s Version) á Spotify en hún er í heildina tvær klukkustundir og tíu mínútna löng.


Tengdar fréttir

Konur áttu bresku tón­listar­verð­launin

Bresku tónlistarverðlaunin voru afhend í gærkvöldi í O2-höllinni í London. Dua Lipa fór heim með tvenn verðlaun og alls unnu konur átta verðlaun í gærkvöldi, átta af ellefu verðlaunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.