Veiði

Vel skrifuð bók um rjúpnaveiðar

Karl Lúðvíksson skrifar
Gegnið til rjúpna er virkilega vel skrifuð bók og góð fyrir allar skyttur að lesa, byrjendur sem og lengra komna

Nú stendur rjúpnaveiðitímabilið yfir og skyttur landsins eru um þessar mundir að ganga á fjöll og heiðar til að ná í jólamatinn.

Það hefur ekki verið mikið um bækur sem fjalla eingöngu um skotveiðar síðustu ár en nú hefur verið gerð bragarbót á því. Dúi Landmark og Veröld voru að gefa út bókina "Gengið til rjúpna" og hefur Veiðivísir lesið þessa bók spjaldana á milli og það verður að segjast að innihald þessarar bókar er sérstaklega áhugavert og vel skrifað.

Dúi hefur gengið til rjúpna í áratugi og það einhvern veginn skín í gegn ástríða fyrir þessu skemmtilega sporti í skrifum hans. Bókin er yfirgripsmikil og fer yfir það helsta sem snýr að rjúpnaveiðum en þar má sem dæmi nefna góðan kafla um útbúnað, undirbúning, allt sem viðkemur skotvopnaleyfi, veiðikorti, skotvopnum, skotfærum, líffræði og lifnaðarhætti rjúpunnar svo fátt eitt sé nefnt.

Saga rjúpnaveiða á Íslandi er einnig rakin og er mjög áhugaverð en á tímabili voru rjúpur veiddar í stórum stíl til útflutnings og var þetta oft á tíðum mikil búbót fyrir sveitabæi. Í bókinni er líka fjallað um veiðisiðferði, meðhöndlun afla, rjúpnaveiðar með hundi og það sem líklega má alls ekki gleymast, spennandi leiðir til að matreiða rjúpu. Þar kemur villibráðar meistarinn Úlfar Finnbjörnsson með sínar bestu uppskriftir að rjúpu.

Rjúpnaveiðar er vinsælt sport

í bókinni er líka ansi skemmtilegur kafli um veiðisögur af rjúpnaslóðum og þar eru engar smá kannónur sem segja frá skemmtilegum dögum við rjúpnaveiðar. Þar koma inn með sögur menn eins og Ásgeir Heiðar, Ásmundur Einar Daðason, Eggert Skúlason, Ívar Pálsson, María Björg Gunnarsdóttir, Sæunn Marínósdóttir, Kjartan Antonsson bara svo nokkrar skyttur séu nefndar. Þetta er eiginlega einn af uppáhalds köflunum mínum í þessari bók því það er svo margt skemmtilegt sem skyttur upplifa á eltingarleiknum við jólamatinn og sumar sögurnar ævintýrilega skemmtilegar.

Það eina sem ég hugsaði að gæti vantað væri kafli um hvar rjúpu sé helst að finna en að vel hugsuðu málli er líklega rétt að hann sé ekki að finna í þessari bók. Bókin gefur byrjendum góða innsýn inn í allt það sem skiptir máli til að koma sér af stað en hitt, að finna fuglinn, kemur síðan með reynslunni. Rjúpnaveiðar eiga ekkert að vera auðveldar, þetta er sport, og hluti af upplifunu hvers veiðimanns sínu fyrstu daga við veiðar á einmitt að vera óvissan um það hvað dagurinn ber í skauti sér. Það myndi líklega draga mikið  úr ánægjunni ef það væri leiðarvísir að góðum svæðum í bókinni. Eins tel ég hreinlega ólíklegt að reynsluboltar í sportinu séu yfirleitt til í að deila með öllum hvar þeir gera bestu veiðina.

Þetta er í alla staði frábær bók og kærkomin fyrir þá sem sækja á fjöll og heiðar til að sækja þá bráð sem fyllir húsið ilm af jólum og er á svo mörgum Íslenskum heimilum ómissandi partur af jólahaldinu. Vel gert Dúi :)






×