Nú er yfirstandandi formannskjör í Kennarasambandi Íslands. Vísi barst ábending frá glöggum lesanda, sem taldi það skjóta skökku við, að það fólk sem sér um að uppfræða æskulýð landsins, virðast eiga í stökustu vandræðum með stafsetningu.

Þegar félagsmenn skrá sig inn til að taka þátt í hinum æsispennandi rafrænu kosningum þá kemur upp gluggi þar sem sjá má skráð stórum stöfum: „Kostningar“. Og undir er svo þessi stafsetningarvilla endurtekin: „Hér getur þú farið í kostningar“.
Eflaust skrifast þessi meinlega villa á þá miklu spennu sem nú ríkir meðal kennara, hver verður næsti formaður Kennarasambands Íslands? Frestur til framboðs rann út í gær en atkvæðagreiðsla fer fram dagana 2. til 8. nóvember. Í framboði eru fjórir: Anna María Gunnarsdóttir, varaformaður Kennarasambands Íslands, Hanna Björg Vilhjálmsdóttir, kennari í Borgarholtsskóla, Heimir Eyvindsson, dönskukennari og deildarstjóri í Grunnskólanum í Hveragerði og Magnús Þór Jónsson, skólastjóri í Seljaskóla.