Sport

Verstappen sýndi Hamilton fingurinn

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Max Verstappen
Max Verstappen EPA-EFE/SHAWN THEW

Max Verstappen var heldur betur ósáttur við höfuðandstæðing sinn í Formúlu 1, Lewis Hamilton, á annarri æfingunni fyrir bandaríska kappaksturinn sem fer fram um helgina í Texas.

Verstappen á að hafa kallað Hamilton „heimskan hálfvita“ í kallkerfi Redbull liðsins á meðan æfingunni stóð. Að auki sýndi Verstappen Hamilton fingurinn samkvæmt fréttum. Mikill hiti, en Verstappen hefur nauma forystu í stigakeppni ökuþóra. Hvorugur þeirra átti þó besta tíma dagsins.

Allt hófst þetta þegar Hamilton ók upp að hlið Verstappen fyrir síðustu beygjuna í öðrum hring æfingarinnar. Verstappen varð saltvondur í kjölfarið. Hamilton hafði þó verið ósáttur við Redbull ökumanninn skömmu áður þegar Verstappen hægði á sér þegar að Hamilton vildi halda sama hraða til þess að hafa dekkin í réttu hitastigi fyrir sinn hraðasta hring.

Það var svo á endanum Sergio Perez sem átti besta tímann á æfingunni. Perez keyrir fyrir Redbull rétt eins og Verstappen. Hamilton hefði átt hraðasta tímann en hann fór smávægilega út fyrir mörk brautarinnar og því stóð hans besti hringur ekki.

Verstappen hefur sex stiga forystu í stigakeppni ökuþóra á Hamilton þegar sex keppnir eru eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×