SpaceX, sem er ekki á hlutabréfamarkaði, var nýverið metið á hundrað milljarða dala en starfsmenn Morgan Stanley telja að leiðin liggi áfram upp á við. Musk hafi skapað mjög álitlegt fyrirtæki með þróun endurnýtanlegra eldflauga og Starlink-gervihnatta, sem eiga að dreifa nettengingu um allan heim.
Með því að lenda eldflaugum og nota þær aftur hefur SpaceX dregið verulega úr kostnaði við geimskot. Framtíðarsýn Musks snýr þó að þróun Starship-geimfarsins.
Það vill Musk nota til að flytja menn og birgðir út í geim. Bæði til tunglsins og til Mars.
Hann hefur einnig lýst því yfir að hann vilji að eldflaugarnar virki í raun eins og flugvélar. Hægt væri að stíga upp í eldflaug í Reykjavík og lenda í Tókíó nokkrum mínútum síðar. Þar þyrftu starfsmenn einungis að bæta eldsneyti á eldflaugina og hægt væri að fljúga henni á næsta áfangastað.
Síðasta sumar sendi Musk tölvupóst á starfsmenn þar sem hann sagði þróun Starship-geimfara væri í forgangi hjá SpaceX.
Hér má sjá myndband af síðasta tilraunaskoti SpaceX þar sem frumgerð Starship var skotið á loft.
Þessi frumgerð bar titilinn SN15 og var henni skotið í um tíu kílómetra hæð. Sex mínútum eftir skotið, lenti eldflaugin aftur á skotstaðnum. Geimfarið féll lárétt til jarðar en skömmu fyrir lendingu er kveikt aftur á hreyflum þess, því snúið og geimfarinu lent.
Starship á að skjóta á loft með Super Heavy eldflaug SpaceX. Eldflaugin á að lenda aftur á jörðinni og geimfarið getur svo haldið áfram út í geim. Markmið SpaceX er að þróa öflugustu eldflaug heimsins og á Starship að geta komið meira en hundrað tonnum af jörðinni.
Í minnisblaði sem sent var til fjárfesta í gær og CNBC segir frá, skrifaði greinandi Stanley Morgan að þróun Starship gæti gjörbreytt væntingum fjárfesta til geimiðnaðarins. Það sem SpaceX væri að gera í Texas væri að kollvarpa fyrirframgefnum ályktunum um alla tímaramma varðandi þróun og framleiðslu eldflauga og geimfara.
Með ódýrum geimskotum og Starlink-gervihnöttum hefði SpaceX mikla tekjuöflunarmöguleika mörg ár fram í tímann. Eins og bent er á í frétt CNBC spáðu starfsmenn Morgan Stanley því í fyrra að SpaceX yrði metið á hundrað milljarða dala en þá var það einungis metið á tæpa 44 milljarða.
„Fleiri en einn viðskiptavinur hefur sagt okkur að ef Elon Musk verði fyrsti billjónamæringurinn (e. trillionaire) verður það ekki vegna Tesla. Aðrir hafa sagt að SpaceX gæti orði verðmætasta fyrirtæki heimsins,“ stóð í áðurnefndu minnisblaði.