Morgunblaðið greindi frá því í morgun að hópurinn hafi sent umræddan póst á stjórn KSÍ í lok september síðastliðnum þar sem fram komu nöfn sex leikmanna íslenska karlalandsliðsins í fótbolta og upplýsingar um meint ofbeldis- og kynferðisbrot þeirra.
Varð pósturinn til þess að Arnar Þór Viðarsson, þjálfari landsliðsins, gat ekki valið þá leikmenn fyrir leik landsliðsins í október fyrir undankeppni HM. Sjálfur sagði Arnar þann 30. september síðastliðinn að hann hafi sjálfur tekið ákvörðunina um að velja ekki umrædda leikmenn.
Meðal þeirra sem nefndir voru í póstinum voru Aron Einar Gunnarsson, Kolbeinn Sigþórsson og Gylfi Þór Sigurðsson, en mál þeirra hafa verið til umfjöllunar undanfarið í fjölmiðlum.
Þrír leikmenn til viðbótar sem nefndir voru í pósti Öfga hafa ekki enn verið nafngreindir opinberlega. Meðlimir Öfga segja í samtali við fréttastofu að hópurinn muni ekki koma til með að tjá sig um málið.
Mál leikmannanna er nú sagt vera komið á borð Sigurbjargar Sigurpálsdóttur, samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs, en hún vildi ekki staðfesta það í samtali við fréttastofu.
„Lögum samkvæmt þá ber samskiptaráðgjafa að gæta trúnaðar í sínum störfum og því get ég ekki staðfest neinar einstakar fréttir,“ segir Sigurbjörg í samtali við fréttastofu um málið en hún segir gott að fólk sé að nýta sér úrræðið.
Ekki hafa fengist svör frá KSÍ vegna málsins.