Helgi Hrannarr Jónsson, formaður meistaraflokksráðs Stjörnunnar, segir í samtali við Fótbolta.net í dag að Stjarnan muni fyrir vikulok ganga frá ráðningu nýs þjálfara karlaliðs félagsins í knattspyrnu. Miðillinn segir það „sífellt líklegra“ að Heimir taki við Stjörnunni en að Helgi hafi ekki viljað staðfesta að félagið ætti í viðræðum við Heimi.
Heimir vildi ekki tjá sig um málið þegar Vísir náði tali af honum í dag. Hann kvaðst aðeins vissulega hafa rætt við fjölmörg félög, innlend sem erlend, undanfarna mánuði og að mismunandi væri hve langt þær viðræður hefðu náð.
Heimir hefur verið án þjálfarastarfs síðan að samningur hans hjá Al Arabi í Katar rann út í maí. Hann stýrði áður íslenska landsliðinu í sjö ár, fyrst sem aðstoðarþjálfari í tvö ár, eftir að hafa þjálfað karla- og kvennalið ÍBV heima í Vestmannaeyjum.
Stjarnan hóf síðustu leiktíð undir stjórn Rúnars Páls Sigmundssonar en hann hætti óvænt eftir fyrstu umferð Pepsi Max-deildarinnar. Rúnar hafði þá stýrt liðinu frá haustinu 2013. Þorvaldur Örlygsson færðist þá úr stöðu aðstoðarþjálfara og stýrði Stjörnunni út leiktíðina en hætti svo og gerðist rekstarstjóri knattspyrnudeildar félagsins.