Ríkisstjórn Donalds Trump, fyrrverandi forseta, ákvað að halda leynd yfir kjarnorkuvopnabúi sínu eftir mars árið 2018. Þá sagði hún að 3.822 kjarnavopn hefðu verið í eigu Bandaríkjanna í september árið 2017.
Utanríkisráðuneytið boðaði gegnsæi þegar það birti fyrstu tölurnar um fjölda kjarnavopna í meira en þrjú ár í dag. Það telur það hjálpa baráttunni gegn útbreiðslu kjarnavopna að birta tölurnar opinberlega.
Í september í fyrra áttu Bandaríkin 3.750 kjarnavopn, ýmist tilbúin til notkunar eða í langtímageymslu, að sögn AP-fréttastofunnar. Þau voru 3.805 árið áður og 3.875 í september 2018.
Kjarnavopnum Bandaríkjanna hefur fækkað mikið undanfarna áratugi. Þau voru fleiri en tíu þúsund árið 2003 en þau voru flest 31.255 árið 1967.
Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði á ráðstefnu um afkjarnavopnun í febrúar að Bandaríkin hefðu siðferðislega skyldu og þjóðaröryggislega nauðsyn til þess að fækka og útrýma á endanum ógninni af gereyðingarvopnum.