Í tilkynningu á vef Neytendastofu segir að stofnuninni hafi borist ábending um grímu sem væri auglýst sem persónuhlíf án þess að uppfylla skilyrði um öryggi persónuhlífa og væri án CE-merkis. Gríman hafi verið markaðssett sem öndunarfærahlíf í FFP2 flokki.
Því hafi stofnunin óskað eftir afhendingu gagna um öryggi grímunnar úr hendi innflytjanda. Þau gögn sem stofnunni hafi borist hafi reynst ófullnægjandi.
Andlitsgríman hafi reynst ekki hafa farið í gegnum ítarlegt samræmismatsferli sem FFP2 öndunarfærahlífar þurfi að undirgangast áður en þær séu settar á markað.
Af þeim sökum var það niðurstaða Neytendastofu að Smartmi andlitsgríman væri ekki örugg vara þar sem hún veiti notendum hennar falskt öryggi. Því bæri að innkalla hana og banna sölu hennar.
„Í ljósi framangreinds vill Neytendastofa hvetja neytendur til að skila vörunni til Tunglskins gegn endurgreiðslu hennar eða að farga vörunni,“ segir í lok tilkynningar Neytenndastofu.