Í þáttunum skoðar leikarinn stórkostlega staði um allan heim og fer langt út fyrir þægindarammann sinn í klettaklifri, köfun og alls konar öðrum áskorunum. Á Íslandi skoðar hann meðal annars virkt eldfjall, gengur á jökul, fer á kajak í straumharðri á og fleira skemmtilegt. Vefurinn Kvikmyndir.is sagði fyrst frá.
Við sögðum frá því þegar Stuðlagil var lokað almenningi 28. og 29. ágúst á síðasta ári. Kvikmyndatökulið þáttanna hafði tekið það á leigu og í klippunni hér fyrir neðan má sjá Will Smith spóka sig í Stuðlagili og náttúruperlum víðar um heim.
Kvikmyndagerðarmaðurinn Darren Aronofsky gerir þættina en hann leikstýrði myndinni Noah sem var tekin upp að hluta til á Íslandi. Aronofsky hefur látið sig umhverfisvernd á Íslandi varða, studdi meðal annars Náttúruverndarsamtök Íslands og kom að stórtónleikunum Stopp! Gætum garðsins árið 2014.