Þetta staðfestir Þórir Haraldsson, formaður yfirkjörstjórnar kjördæmisins, í samtali við Vísi. Unnið var að því að ganga frá kjörseðlunum og innsigla þegar blaðamaður náði af honum tali. Endurtalningin hófst klukkan 19 og stóð því yfir í fimm klukkustundir. RÚV greindi fyrst frá niðurstöðunni.
„Þetta var í samræmi við það sem ég vonaðist en auðvitað er ekkert mannanna verk fullkomið og alltaf getur eitthvað mislagt svo það var mikill léttir að sjá að nákvæm vinnubrögð okkar starfsfólks hafi skilað sér,“ segir Þórir.
Öll framboð í Suðurkjördæmi sendu umboðsmann í Fjölbrautaskóla Suðurlands til að fylgjast með endurtalningunni, fyrir utan Frjálslynda lýðræðisflokkinn.
Fimm framboð óskuðu eftir endurtalningu
Þórir sagði í samtali við Vísi á ellefta tímanum að endurtalning atkvæða úr kjördæminu hafi gengið vel.
„Við erum langt komin með seinni yfirferð í endurtalningu og þetta lítur vel út. Við klárum þetta í rólegheitum,“ sagði hann þá.
Afar mjótt var á munum í kjördæminu þar sem einungis munaði sjö atkvæðum á lista Vinstri grænna, sem náðu ekki inn manni, og Miðflokksins sem fékk síðasta kjördæmakjörna þingmann kjördæmisins.
Fimm framboð óskuðu eftir endurtalningu í suðurkjördæmin og taldi yfirkjörstjórn ástæðu til að verða við þeirri beiðni. Talning fór fram í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi og hófst um kl. 19.
Fréttin hefur verið uppfærð.