Yfirkjörstjórn í Norðvesturkjördæmi hefur í fjörutíu ár eða lengur talið atkvæði í Alþingiskosningum í veislusal Hótels Borgarness að sögn eigenda og hefur allrar varúðar verið gætt við talninguna eins og hólfun salarins og öryggismyndavélar
Ákveðið var að endurtelja atkvæði þar í gær sem kom af stað mikilli hringekju við útdeilingu jöfnunarþingsæta.
Ingi Tryggvason formaður yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi segir að endurtalningin þar hafi verið ákveðin því það var svo mjótt á munum eftir ábendingu frá Landskjörstjórn. Hann segir ástæðuna alls ekki vera þá að kjörgögnin voru skilin eftir óinnsigluð eftir talningu eins og fram hefur komið.
„Við fengum ábendingu um það að það munaði litlu í tveimur kjördæmum í sambandi við jöfnunarsæti og ákváðum því að endurtelja atkvæðin,“ segir Ingi.
Ávallt sami hátturinn
Eins og fram hefur komið hefur framkvæmd kosningana nú verið kærð til lögreglu en samkvæmt 104. grein kosningalaga á að innsigla atkvæði að talningu lokinni. Ingi segir að sami háttur hafi ávallt verið hafður á talningu í Norðvesturkjördæmi.
„Atkvæðin eru geymd inn í þeim sal þar sem talningin fer fram. Salurinn er þá læstur og það eru öruggismyndavélar í honum. Þetta er bara hefðbundið og hefur verið gert eins síðan ég tók þetta embætti að mér,“ segir Ingi.
Ingi útilokar að einhver hafi getað komið inn í salinn meðan yfirkjörstjórnin brá sér frá.
„Við vitum það alveg að það fór enginn inn í salinn þann stutta tíma sem við vikum frá,“ segir hann.
Lentu í C-bunka
Hann segir að ástæðuna fyrir því að endurtalningin hafi ekki skilað sömu niðurstöðu og áður vera einfalda.
„Helsta ástæðan var að það höfðu mislagst atkvæði, þau sem sagt áttu ekki að vera í C- bunkanum en höfðu lent þar,“ segir Ingi.
Kjörgögnin úr Norðvesturkjördæmi eru nú geymd á Lögreglustöðinni í Borgarnesi en hefð er fyrir því að geyma þau þar þar til þeim er skilað til Dómsmálaráðuneytis. Vegna kærunnar ber lögreglu nú hins vegar að rannsaka gögnin en þau bíða þess nú í fangageymslu að því er fréttastofa kemst næst.