Þetta staðfestir Þórir Haraldsson, formaður yfirkjörstjórnar í Suðurkjördæmi, í samtali við fréttastofu. Mjög mjótt var á munum í kjördæminu og þannig munaði aðeins sjö atkvæðum á lista Vinstri grænna, sem náðu ekki inn manni, og Miðflokksins sem fékk síðasta kjördæmakjörna þingmanninn.
Þórir segir að yfirkjörstjórn muni funda um málið eftir hádegi og að mögulega verði eitthvað að frétta um klukkan 14.
Endurtalning á atkvæðum fór fram í Norðvesturkjördæmi síðdegis í gær þar sem nokkur atkvæði hliðruðust til milli nokkurra flokka, sem varð til þess að jöfnunarsæti í öllum kjördæmum nema einu fóru á flakk.
Ef endurtalning í Suðurkjördæmi leiddi það í ljós að Vinstri græn væri með fleiri atkvæði en Miðflokkurinn myndi slíkt hafa svipaðar afleiðingar í för með sér. Ef kjördæmakjörinn þingmaður Miðflokksins dytti út yrði flokkurinn að fá annan þingmann inn sem jöfnunarmann. Í hvaða kjördæmi það yrði og á hvaða önnur jöfnunarsæti það hefði áhrif er þó óljóst.
Engir umboðsmenn í „gæðatékkinu“
Álfheiður Eymarsdóttir, sem skipaði 1. sæti á lista Pírata í Suðurkjördæmi, segir frá því á Facebook í morgun að Sjálfstæðismenn og Sósíalistar hafi sömuleiðis tekið undir athugasemdir Pírata um að „gæðatékk“, sem var endurtalning á atkvæðum að hluta, hafi verið framkvæmd án þess að umboðsmenn hafi verið látnir vita og því hafi enginn umboðsmaður viðstaddur.
„Sósíalistar tóku einnig undir kröfu okkar um að kjörstjórn skýrði frá því skriflega hvernig atkvæða var gætt eftir að talningu lauk í FSU,“ segir Álfheiður.