Fjórði þáttur seríunnar verður á dagskrá Stöðvar 2 klukkan 18:50 og munu áhorfendur fá að kynnast fjórum einstaklingum og fylgja þeim á blind stefnumót.
Par 1
Fyrsta par kvöldsins eru sjónvarpsstjarnan Bassi Maraj og súpermódelið Úlfar. Þetta er í fyrsta skipti sem Bassi fer á stefnumót og er ekki laust við að það örli fyrir smá stressi hjá okkar manni.

Þó svo að Bassi sé vanur því að vera fyrir framan myndavélarnar þá stígur hann hressilega út fyrir þægindarammann sinn þetta kvöld.

Úlfar hefur starfar bæði sem ljósmyndari og fyrirsæta í Berlín er starfar í dag í raftækjaverslun í Reykjavík.
Báðir eru þeir Úlfar og Bassi miklir húmoristar og er óhætt að segja að samræður kvöldsins séu í frumlegri kantinum. Það verður því spennandi að fylgjast með.
Par 2
Annað par kvöldsins eru Selfossmærin Sigurbjörg Grétarsdóttir og ólívukóngurinn Sighvatur Frank Cassata.

Það er óhætt að segja að það séu fleiri en Sigurbjörg og Cassata sem eru með fiðring í maganum fyrir stefnumótinu því það vill svo skemmtilega til að Sibba, eins og hún er alltaf kölluð, er móðir þáttarstjórnanda.

Það verður því afar forvitnilegt að fylgjast með pörum kvöldsins og óhætt að segja að mikil spenna verði í loftinu eins og sjá má í klippunni hér fyrir neðan.
Fyrir áhugasama og einlæga Fyrsta bliks aðdáendur er hægt að fylgjast með, og jafnvel sjá skemmtilegt aukaefni, á Instagramsíðu Fyrsta bliksins.
Fyrsta blikið eru stefnumóta- og raunveruleikaþættir sem sýndir eru á Stöð 2.
Í hverjum þættir eru kynntir til leiks fjórir einstaklingar sem áhorfendur fá að kynnast í gegnum sófaspjall sem og spjall við aðstandendur. Sýnt er frá spennunni fyrir stefnumótið og auðvitað stefnumótinu sjálfu sem gerist á veitingastaðnum Monkeys í miðbæ Reykjavíkur.
Þættirnir eru sjö talsins og eru á dagskrá Stöðvar 2 á föstudagskvöldum klukkan 18:55 og koma í kjölfarið á Stöð 2+. Hægt er að kaupa áskrift að Stöð 2+ hér.