Katrín Jakobsdóttir vakti athygli á því á Facebook í morgun að mikil menningarverðmæti væru horfin með brunanum á Miðgarðakirkju í Grímsey. Um sé að ræða óbætanlegt tjón. Í samtali við fréttastofu segir Katrín að hugur sinn sé hjá Grímseyingum.
„Við finnum öll til þess þegar menningarminjar hverfa í eldi. Ekki síst þegar það gerist í samfélagi eins og Grímsey, þar sem þessi kirkja hefur verið hluti af sögunni. Og auðvitað finnum við öll til með Grímseyingum þegar svona nokkuð gerist. Þetta er alveg ótrúlega sviplegt,“ segir Katrín.
Aðspurð um hvort hún telji að stjórnvöld séu viljug að koma að endurbyggingu kirkjunnar svarar Katrín.
„ Ég heyrði í bæjarstjóra Akureyrar í morgun vegna málsins en Grímsey heyrir undir stjórnsýsluna þar. Nú eru kosningar í nánd en ég held við hljótum öll að vera sammála um að vilja styðja við bakið á Grímseyingum og bregðast við þessu með því að endurreisa kirkjuna. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir þetta samfélag að endurreisa kirkjuna. Við munum heyra í heimamönnum í framhaldinu,“ segir Katrín.