Drengirnir eru allir fæddir árið 2004 og voru þeir dæmdir í tíu ára, níu ára og átta ára fangelsi eftir að dómur var kveðinn upp í máli þeirra í Helsinki, höfuðborg Finnlands.
Í frétt BBC segir að morðið hafi verið fram í desember á síðasta ári. Drengirnir þrír hafi setið að sumbli í afmælisveislu þar sem þeir rákust á kunningja þeirra. Segir í fréttinni að drengirnir hafi ráðist á hann og að árásin hafi alls staðið yfir í fjóra tíma.
Lögregla hefur lýst morðinu sem hrottafengnu en fórnarlambið var skilið eftir meðvitundarlaust á vettvangi árásinnar, sem framin var á föstudegi. Líkið fannst ekki fyrr en á mánudeginum þegar starfsmenn sem voru að koma til vinnu á byggingarsvæði tóku eftir því.
Drengirnir þrír voru handteknir eftir að móðir eins þeirra hafði samband við lögreglu. Sá sem var elstur í hópnum fékk þyngstu refsinguna, tíu ára fangelsi, en sá yngsti var dæmdur í átta ára fangelsi.