Kári sér ekki annað en það gangi illa að halda uppi góðu andrúmslofti á vinnustaðnum.
„Ég á mjög erfitt með að hafa einhverja samúð með þeim sem tala um að þeir séu orðnir þreyttir út af þessum faraldri,“ segir Kári í viðtali sem birtist í Læknablaðinu í dag.
„Vegna þess að þegar maður vinnur þá vinnu sem maður hefur þjálfað sig í að sinna í áratugi, starf sem maður hefur valið sér og allt í einu er þörf fyrir það, þá á að vera gaman. Menn eiga ekki að vera þreyttir,“ segir Kári og vísar síðan til þess þegar Íslensk erfðagreining tók að sér að sjá um að skima fyrir veirunni í byrjun faraldursins. Starfsfólk fyrirtækisins hafi þá ekki kvartað yfir allt of löngum vöktum sjö daga vikunnar.
„Menn voru ánægðir. Þeir fengu að taka þátt. Þeir voru hluti af því sem var að gerast,“ segir hann.
„En um leið og þetta fór upp á Landspítala þá fóru allir að tala um að menn væru svo þreyttir. Þetta er einhver misskilningur. Ofboðslega gott fólk vinnur að veirurannsóknum uppi á Landspítala. Þetta er afburðarfólk en einhverra hluta vegna er andrúmsloftið á spítalanum þannig að það virðist ekki fá tækifæri til þess að njóta þess sem það gerir. Það er út í hött. Það þarf að gera eitthvað í því.“
Eiga að vera stoltir af starfi sínu
Kári segir það göfugt starf að fá að hlúa að sjúkum og meiddum og það hljóti að vera hægt að búa til ástand á spítalanum þar sem menn geti verið montnir af því að starfa þar.
„En eins og stendur vill enginn vinna á Landspítala,“ segir hann.
Til að koma hlutum í betra lag á spítalanum þurfi margt að koma til, meðal annars hugarfarsbreyting og meira fé. Einnig verði að ráðast í endurskipulagningu á hlutverki spítalans í samhengi við afganga heilbrigðiskerfisins.