Ný rannsókn sem birtist í vísindaritinu Science er sú fyrsta sem tengir hlýnun loftslags á norðurskautinu við kuldakast sem kennt hefur verið við Valentínusardaginn í Bandaríkjunum í febrúar. Kuldinn olli umfangsmiklu rafmagnsleysi í Texas. Fleiri en 170 manns fórust og eignatjón upp á að minnsta kosti tuttugu milljarða dollara varð í veðrinu.
Stöðugir skotvindar, sem eru alla jafna kallaðir heimskautalægðin, halda svellköldu heimskautalofti í kringum norðurpólinn að vetri til. Hlýtt loft veikir þessa vinda sem gerir tungum af fimbulköldu heimskautalofti kleift að „leka“ suður á bóginn. Vetrarveðrið sem gengur þá yfir meginland Norður-Ameríku hefur einnig verið kallað heimskautalægð (e. Polar Vortex).
Tilgátur hafa því verið um að hnattræn hlýnun, sem er um tvöfalt hraðari á norðurskautinu en annars staðar á jörðinni, gæti leitt til fjölgunar heimskautalægða á meginlöndum á norðurhveli. Halldór Björnsson, loftlagsvísindamaður á Veðurstofu Íslands, sagði slíkar hugmyndir allar á tilgátustigi í viðtali við Vísi árið 2019.
Nú gerist það meira en tvöfalt oftar á ári en snemma á 9. áratug síðustu aldar að það slaknar á vindabeltinu í kringum norðurskautið og svalt loft leitar suður samkvæmt rannsókninni, að sögn AP-fréttastofunnar.
„Það er ekki augljóst að norðurheimskaut sem hlýnar hratt geti leitt til aukninar í ofsakulda á stöðum sem eru eins sunnarlega og Texas en lærdómurinn af greiningu okkar er að búast við því óvænta af loftslagsbreytingum,“ segir Judah Cohen, sérfræðingur í vetrarlægðum og aðalhöfundur greinar um rannsóknina.
Greining Cohen og félaga sýnir að þegar svæðið norðan Englands og í kringum Skandinavíu hlýnar meira en í kringum Síberíu teygist skotvindabeltið yfir norðurskautinu í austur og kalt loft fer frá Síberíur yfir pólinn og svo suður yfir mið- og austanverð Bandaríkin.
„Við færum rök fyrir því að bráðnandi hafís yfir Norðvestur-Evrasíu, ásamt aukinni snjókomu í Síberíu, leiði til styrkingu hitamismunar á milli vesturs og austurs um alla evrasíska meginlandið. Við vitum að þegar hitamunurinn eykst leiðir það til frekari röskunar á heimskautalægðinni. Þegar hún veikist leiðir það til öfgafyllra vetrarveðurs eins og kuldakastsins í Texas í febrúar,“ segir Cohen við BBC.
Cohen vonast til þess að greiningin hjálpi veðurfræðingum að spá fyrir um komandi vetrarhörkur. Það hefði til dæmis gert fólki í Texas lengri tíma til að búa sig undir veðrið en fjöldi þeirra varð úti í kuldanum.