Þyrlurnar eru keyptar notaðar af fyrirtæki í Oostende í Belgíu og verða þær ferjaðar í áföngum til Grænlands á næstunni með millilendingu á Bretlandseyjum, Færeyjum og Íslandi. Fyrsta þyrlan lagði af stað á miðvikudag og flaug þann daginn til Hjaltlandseyja með viðkomu í Norwich, Newcastle og Aberdeen. Á Hjaltlandi biðu flugmennirnir færis þar til í morgun að þeir flugu til Færeyja og síðan til Íslands.
Airbus-þyrlurnar leysa af eldri þyrlur Air Greenland af gerðinni Bell 212 og er einkum ætlað að sinna farþegaflugi innanlands milli byggða á Grænlandi. Þær koma með tíu farþegasætum auk farangursrýmis. Fljótlegt er að fjarlægja farþegasætin ef nota á þyrlurnar til fraktflugs eða sjúkraflugs en ætlunin er einnig að þær nýtist til leitar- og björgunarflugs.

Airbus H155 eru hraðfleygustu þyrlur á markaðnum í sínum flokki, fljúga á yfir 260 kílómetra hraða meðan Bell-þyrlurnar fljúga á 185 kílómetra hraða. Þá hafa Airbus-þyrlurnar allt að 784 kílómetra flugdrægi og eru þannig ríflega tvöfalt langdrægari en Bell-þyrlurnar, en flugdrægi þeirra er 370 kílómetrar.
Vegna komu þeirra þarf að reisa nýtt flugskýli í bænum Upernavik og stækka skýli í bæjunum Qaanaaq og Tasiilaq.