Útgáfufélag bókanna, Bok-Makaren, staðfestir þetta í samtali við Aftonbladet.
„Það er með mikilli sorg sem við tilkynnum að rithöfundurinn og teiknarinn Gunilla Bergström sé látin. Forlagið fékk þau leiðu skilaboð frá fjölskyldunni í gær. Gunilla lést á heimili sínu eftir að hafa glímt við vanheilsu í lengri tíma,“ segir í yfirlýsingunni.
Fyrsta bókin um Alfons Åberg, eða Einar Áskel eins og hann hét á íslensku, kom út árið 1972 og hafa bækurnar verið þýddar á um 35 tungumál. Alls hafa komið út 26 bækur um drenginn, sem býr ásamt föður sínum í blokkaríbúð í óræðri sænskri borg.
Í bókunum er fylgst með uppvexti og ævintýrum Einars Áskels, en í fyrstu bókunum er fjögurra ára og í leikskóla.
Í síðari bókum má svo meðal annars fylgjast með Einari byrja í grunnskóla, en bækurnar voru þó ekki gefnar út í réttri tímaröð þegar kemur að ævi Einars.
Auk bókanna hafa verið framleiddir sjónvarpsþættir um Einar Áskel.