Þetta tilkynnti Biden á blaðamannafundi fyrir stuttu. Undanfarna viku hefur umfangsmikið verkefni staðið yfir hjá Bandaríkjaher að koma öllum bandarískum ríkisborgurum og starfsmönnum hersins úr landinu, frá því að Talibanar tóku þar völd. Fréttastofa AP greinir frá.
Biden hefur verið beittur miklum þrýstingi af Bretum, Frökkum og Þjóðverjum um að seinka brottför en Talibanar hafa varað við því að verði dvölin framlengd verði afleiðingarnar miklar.
Undanfarna daga hafa Bandaríkjamenn spýtt í fólksflutninginn frá Afganistan eftir því sem staðan þar hefur orðið verri. Fregnir hafa borist af því að Talibanar skjóti á almenning og þúsundir sem hræðast refsingar Talibana reyna að flýja landið.
Nú síðast tilkynntu Talibanar að afgönskum borgurum verði ekki leyft að fara á flugvöllinn í Kabúl. Þá biðlaði talsmaður Talibana til Bandaríkjamanna að hvetja Afgana ekki til að yfirgefa landið.