Segja má að lífið án Messi hafi hafist formlega í dag þegar Barcelona hóf leik í spænsku úrvalsdeildinni í fótbolta.
Barcelona fékk Real Sociedad í heimsókn og má ætla að andrúmsloftið á Nou Camp í kvöld hafi verið ansi sérstakt þegar stuðningsmenn félagsins sáu liðið hefja keppni í spænsku úrvalsdeildinni án goðsagnarinnar Lionel Messi sem hefur verið hjartað í liðinu í hartnær sautján ár.
Eins og allt knattspyrnuáhugafólk veit, kvaddi Messi Barcelona í byrjun vikunnar og gekk í raðir PSG skömmu síðar.
Gerard Pique fór fyrir Börsungum og kom liðinu í forystu eftir nítján mínútna leik en hann skoraði eftir undirbúning Memphis Depay.
Danski sóknarmaðurinn Martin Braithwaite sá til þess að Barcelona færi með tveggja marka forystu í leikhlé þegar hann skoraði í uppbótartíma fyrri hálfleiks.
Braithwaite kom Börsungum svo í 3-0 eftir klukkutíma leik og útlit fyrir algjöra draumabyrjun á tímabilinu.
Gestirnir í Real Sociedad gáfust þó ekki upp og skoruðu tvö mörk með stuttu millibili, á 82. og 85.mínútu. Hefur eflaust farið um stuðningsmenn Börsunga á þessum lokaandartökum leiksins en þeir gátu andað léttar þegar Sergi Roberto gulltryggði góðan sigur Barcelona með marki í uppbótartíma eftir undirbúning Braithwaite.
Barcelona byrjar því leiktíðina í spænsku úrvalsdeildinni með sigri, líkt og Atletico Madrid og Real Madrid.