Kórónuveiran hefur haft mikil áhrif á íþróttakeppnir frá því í mars 2020 en það eru þó ekki mörg mót sem hafa þurft að bíða í átján mánuði eftir að fara fram.
Íslenski landsliðshópurinn í klifri er nú staddur í Kaupmannahöfn þar sem þau taka þátt á Norðurlandamótinu í grjótglímu (e. bouldering) sem fram fer í Bison Boulders í Kaupmannahöfn dagana 6-7. ágúst.
Mótið átti upphaflega að fara fram í febrúar 2020 en vegna aðstæðna hefur það frestast um hálft annað ár. Hópurinn hefur því beðið nokkuð lengi eftir því að komast til keppni og eytt miklum tíma í æfingar á þessum flóknu tímum. Hópurinn hefur verið við æfingar í Kaupmannahöfn síðast liðna viku, er vel stemmdur fyrir helginni og setur stefnuna hátt samkvæmt fréttatilkynningu frá Klifursambandi Íslands.
Keppni hefst á föstudaginn með undanúrslitum eldri hópa en þar keppa þau Gabríela Einarsdóttir og Stefán Þór Sigurðsson, Klifurfélagi Reykjavíkur, í Junior-flokki (2002-2003). Þau hafa bæði tekið þátt á NM áður, en Gabríela hefur einu sinni náð í úrslit.

Undanúrslit yngri hópa fara fram laugardagsmorguninn. Í A-flokki (2004-2005) klifra þau Árni Hrafn Hrólfsson, Klifurdeild Bjarkanna, og þau Lukka Mörk Sigurðardóttir og Sólon Thorberg Helgason frá Klifurfélagi Reykjavíkur. Lukka Mörk á besta árangur íslenskra klifrara á Norðurlandamóti nýlega en hún hafnaði í fjórða sæti á síðasta móti sem fram fór í Helsinki 2019.
Í B-flokki (2006-2007) klifra þau Elís Gíslason, Klifurfélagi Reykjavíkur og Sylvía Þórðardóttir, Klifurfélagi ÍA, en þau eru bæði að keppa á Norðurlandamóti í fyrsta sinn.
Fyrir hópnum fara þeir Elmar Orri Gunnarsson, Klifurfélagi Reykjavíkur og Þórður Sævarsson, Klifurfélagi ÍA.