Meirihluti landsmanna hefur nýlokið við áhorf á þáttaröðinni Kötlu og því má ætla að margir hafi verið áhugasamir vegna jarðskjálfta sem mældust á svæði eldstöðvarinnar í gærkvöldi.
Tveir skjálftar að stærð 3,2 mældust rétt fyrir klukkan hálf átta í gærkvöldi og fylgdu yfir tuttugu eftirskjálftar í kjölfarið og voru skjálftar enn að mælast í morgun.
Bjarki Friis, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir þó að skjálftar sem þessir séu ekki óvenjulegir á þessum árstíma.
„Þetta tengist svona að mestu leyti bráðnun eða losun íssins þarna uppi. Þetta er svona árstíðabundið og það koma á hverju ári svona hrynur eða skjálftar af þessari stærð á hverju sumri.“
Hann segir að skjálftar sem þessir hafi einnig mælst fyrr í vikunni og segist hann búast við fleiri skjálftum á svæðinu í sumar.
„Auðvitað verður maður samt að fylgjast með öllu sem gerist, alveg sama þó maður haldi að það tengist losun eða bráðnun eða virkni í hverasvæðinu undir.“
Hann segir skjálftana þó ekki tengjast gosóróa.
„Við erum ekkert að búast við gosi hérna á næstunni í Kötlu.“