Leiðtogar Repúblikana brugðust reiðir við, sökuðu Pelosi um valdníðslu og nú neita flestir Repúblikanar að taka þátt í störfum nefndarinnar.
Repúblikanar segjast ætla að stofna sína eigin nefnd.
Kevin McCarthy, leiðtogi Repúblikana í fulltrúadeildinni, hafði lagt til að meðal þeirra sex Repúblikana sem ættu að sitja í nefndinni væru þeir Jim Jordan frá Ohio og Jim Banks frá Indiana.
Báðir eru yfirlýstir og dyggir stuðningsmenn Donalds Trump, fyrrverandi forseta, og báðir greiddu atkvæði gegn því að staðfesta niðurstöður forsetakosninganna, sem Trump tapaði og Joe Biden vann. Þar að auki hafa þeir báðir tekið undir ósannar yfirlýsingar Trumps um að umfangsmikið kosningasvindl hafi kostað hann sigur.
Þegar æstur múgur ruddi sér leið inn í þinghúsið þann 6. janúar var það gert með því markmiði að koma í veg fyrir að þingið staðfesti niðurstöðurnar formlega.
AP fréttaveitan segir Pelosi hafa rétt til þess að hafna tillögum minnihlutans samkvæmt lögum um þingnefndir, þar sem hún er forseti fulltrúadeildarinnar. Hún viðurkenndi þó þegar hún tilkynnti ákvörðun sína í gær að hún væri óvenjuleg.
Pelosi sagði að tryggja þyrfti heilindi rannsóknarnefndarinnar. Því væri ekki rétt að þeir Banks og Jordan sætu í henni. Pelosi samþykkti hina þrjá sem McCarthy tilnefndi.
Hún kallaði eftir því að McCarthy tilnefndi tvo aðra þingmenn. Það gerði McCarthy ekki.

Ætla að gera eigin rannsókn
Þess í stað meinaði hann þingmönnum Repúblikanaflokksins að taka þátt í störfum nefndarinnar og hét því að Repúblikanar myndu gera „eigin rannsókn á staðreyndum“, án þess þó að skilgreina hvað nákvæmlega nefndin ætti að rannsaka.
Þá leyfa reglur þingsins minnihlutanum ekki að stofna þingnefndir.
Hér má sjá hluta blaðamannafundar McCarthy og annarra þingmanna þar sem þeir fóru hörðum orðum um ákvörðun Pelosi.
Til stóð að stofna óháða rannsóknarnefnd til að rannsaka árásina á þinghúsið. Þó nokkrir þingmenn Repúblikanaflokksins í fulltrúadeildinni studdu það á sínum tíma en nánast allir þingmenn flokksins í öldungadeildinni greiddu atkvæði gegn því.
Þingkonan Liz Cheney ætlar að sitja í nefndinni og verður eini Repúblikaninn til að gera það.
Hún var fyrir ekki svo löngu þriðji æðsti Repúblikaninn í fulltrúadeildinni. Cheney hefur þó verið hávær um þá sannfæringu sína að kosningasvindl hafi ekki kostað Trump sigur og var hún ein fárra þingmanna flokksins sem greiddi atkvæði með því að ákæra Trump fyrir embættisbrot.
Í kjölfarið var henni vikið úr embætti innan flokksins og er hún verulega einangruð meðal Repúblikana.
Sjá einnig: Ætlar áfram að beita sér gegn Trump
Washington Post hefur eftir Cheney að hún sé samála þeirri ákvörðun Pelosi að neita Jordan og Banks um sæti í nefndinni. Hún sagði sömuleiðis að þeir væru báðir óhreinlyndir í áróðri þeirra varðandi forsetakosningarnar og árásina á þinghúsið.
„Rannsóknin verður að fara fram. Það að einhver vilji spila pólitíska leiki með árásina á Þinghús Bandaríkjanna er fyrirlitlegt og skammarlegt,“ sagði Cheney.
Cheney sagði einnig að á McCarthy hefði notað hvert tækifæri sem gafst til að reyna að koma í veg fyrir að farið yrði í saumana á því sem gerðist þann 6. janúar.
Repúblikanar reiðir Cheney
Í frétt Politico segir að Repúblikanar hafi brugðist reiðir við orðum Cheney og ákvörðun hennar að taka sæti í nefndinni. Einhverjir hafa lagt til að henni verði refsað og vikið úr sæti hennar í þingnefnd um málefni herafla Bandaríkjanna, sem McCarthy hefur áður gefið í skyn að komi til greina.