„Það er mjög góð uppskera, kartöflurnar spretta og spretta og því erum við farin að taka upp og senda í verslanir. Við erum tíu dögum seinna en síðasta sumar vegna kuldans í vor en kartöflurnar núna eru óvenjulega fallegar og bragðgóðar“, segir Ásdís Bjarnadóttir, garðyrkjubóndi í Auðsholti en hún og Vignir Jónsson eru að taka upp á fullum krafti þessa dagana með sínu fólki.

„Núna erum við með Premier kartöflur en íslenskar rauðar verða líka komnar í verslanir eftir viku. Svo koma nýjar gulrætur frá okkur um verslunarmannahelgina, þannig að það er allt að gerast“, bætir Ásdís við, ánægð með lífið í sveitinni.
