Arnór Ingvi var á bekknum hjá New England Revolution er liðið tapaði óvænt 3-2 fyrir botnliði Austurdeildarinnar, Toronto. Lið Arnórs lenti 3-0 undir en hafði minnkað stöðuna í 3-1 er Arnór kom inn af bekknum. Liðinu tókst að klóra enn frekar í bakkann en lokatölur leiksins voru 3-2 og óvænt tap staðreynd.
New England situr þó enn á toppi Austurdeildarinnar með þriggja stiga forystu á Orlando City.
Montreal vann 2-1 sigur á New York City. Guðmundur Þórarinsson hóf leikinn á bekknum hjá gestunum en kom inn á þegar tæpar tíu mínútur lifðu leiks. Róbert Orri Þorkelsson, nýjasti leikmaður Montreal lék ekki með liðinu í nótt.
Montreal er í 4. sæti Austurdeildarinnar með 19 stig en New York er í 6. sætinu með 17 stig.