Í aðsendri skoðanagrein sem birtist á Vísi í morgun fjallar höfundurinn Þorgerður María Halldórsdóttir um ákvörðun Hrafnistu þess efnis að héðan í frá hafi starfsfólk Hrafnistuheimilanna ekki tök á að fylgja íbúum sem ekki komast sjálfir leiða sinna í fótsnyrtingu né hárgreiðslu. Slíkt þurfi aðstandendur nú að sjá um sjálfir.
Forstjóri Hrafnistu segir þessa ákvörðun enn eina birtingarmynd rekstrarvanda hjúkrunarheimilanna.
„Það hefur ekki farið fram hjá neinum að það er rekstrarvandi hjá hjúkrunarheimilunum. Við þurfum að reyna að beina okkur mannafla þangað sem þörfin er mest og það eru grunnþarfir okkar íbúa þannig við þurfum að forgangsraða og þetta er bara hluti af því,“ segir María Fjóla Harðardóttir, forstjóri Hrafnistu.
Hér áður fyrr gátu flestir heimilismenn farið sjálfir leiða sinna sjálfir í hárgreiðslu og fótsnyrtingu, nú geti það fæstir.
„Staðan er önnur þar sem strangara skilyrði færni og heilsumatsnefndar þá er veikara og veikara fólk að koma til okkar og við þurfum að skutla og sækja hvern einn og einasta,“ segir María.
„Það tekur meira en nokkrar mínútur að fara með einstakling og sækja hann aftur þannig að samanlagt er þetta að taka stóran hluta af okkar fáa mannafla sem er inni á deild hverju sinni.“
María segir að líkt og flestum sé kunnugt vanti hjúkrunarheimilunum fjármagn og úr því hafi enn ekki verið leyst.
„Markmið okkar er fyrst og fremst að tryggja öryggi fólks og þjónustu til fólks og með þessu erum við að tryggja hana,“ segir María.