Veiði

Sogið vill ala upp stórar bleikjur

Karl Lúðvíksson skrifar
Ómar Smári Óttarsson með 66 sm bleikju sem hann veiddi við Ásgarð í gær.
Ómar Smári Óttarsson með 66 sm bleikju sem hann veiddi við Ásgarð í gær.

Sogið er eitt af uppáhaldsveiðisvæðum margra veiðimanna en hefur í gegnum tíðina verið ofveitt þannig að ansi nærri því var gengið.

Þetta á bæði við um lax og bleikju en átímabili leit út fyrir að bleikjustofninn í ánni væri hreinlega kominn á vonarvöl. Breytingar á veiðireglum við Ásgarð í Soginu undir forystu Árna Baldurssonar hafa sett það veiðisvæði aftur á óskalista veiðimanna sem hafa ánægju af því að eltast við stórar bleikjur. Þar veiðist nú hver stórbleikjan á fætur annari og stærðir í 50-60 sm eru varla fréttnæmar. Þarna eru að veiðast 60-70 sm bleikjur og það sem meira er, stærri bleikjur eru að sjást.

Bleikja getur orðið nokkuð gömul og fái hún frið til að stækka getur hún orðið mjög væn en það sést til dæmis vel í norður Kanada þar sem staðbundin bleikja (Salvelinus alpinus) getur orðið allt að 90-100 sm að lengd. Það eru allar forsendur fyrir því í Soginu að staðbundni silungurinn þar geti orðið stór. Fæðuframboð er mjög gott, rányrkja sáralítil á seiðum, alltaf nóg vatn og sveiflur í vatnsmagni litlar. Sogið hefur alla burði til að vera afburða veiðisvæði á stórri bleikju og forsendan fyrir því er að hún sé ekki ofveidd eða hreinlega að öllum fiski skuli sleppt. 

Nú hefur nýr aðili tekið við Bíldsfelli og teljum við nokkuð öruggt að þar verði farið beint í Veitt og Sleppt á öllum afla, lax og silung. Það fagna þessu líklega flestir unnendur Sogsins og bíða spenntir eftir því að árangur sá sem menn veðja á að komi í kjölfarið verði þess efnis að Sogið fái aftur þann sess að verða ein af bestu stórfiskaám landsins.






×