Margt var um manninn í Laugardalshöll þegar gefnir voru fimm þúsund og sjö hundruð skammtar af Moderna á um fjórum klukkutímum í dag.
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins segir það sérstakt á heimsvísu að bólusetja svona marga, svona hratt - og í svona stóru rými.
„Þannig að ég held að þetta sé svolítið einsdæmi, ég er nokkuð viss um það. Það komu Svíar í heimsókn til okkar og þeim fannst þetta mjög merkilegt að fylgjast með þessu, bæði skönnunum og tölvukerfinu, hvernig það gekk fyrir sig en líka þessi stóra bólusetningarherferð hér í höllinni.“

Talsvert meiri og tímafrekari skriffinsku virðist þurfa í öðrum löndum.
„Á meðan við reynum að gera allt sjálfvirkt og svo höfum við séð að bólusetningarnar eru í einhverjum klefum eða eitthvað slíkt.“
Það er þó ekki öllum sem hugnast fjöldabólusetning fyrir allra augum. Komið hefur verið upp sérstöku rými í Laugardalshöll með beddum, þar sem þeir sem vilja liggja í bólusetningu - eða vilja einfaldlega vera í friði - geta fengið sprautu.
Þangað hafa þeir einnig leitað sem geta af trúarlegum ástæðum ekki berað á sér upphandlegginn. Rýmið hefur þó helst nýst þeim sem fallið hafa í yfirlið við bólusetningu, sem eru að langstærstum hluta yngra fólk.
„Þetta eru ansi margir og á stóru dögunum þegar við erum með tíu þúsund skammta eru þetta nokrir tugir sem eru að falla í yfirlið þannig að við verðum að hafa rúma aðstöðu til að taka þau út. Það er líka gott að það komi fram að ef fólk hefur tilhneigingu til að falla í yfirlið eða veit að það muni hugsanlega falla í yfirlið að láta okkur vita fyrirfram.