Leikarinn Jóhannes Haukur Jóhannesson gagnrýndi það á Twitter í byrjun árs að streymisveitan Disney+ byði ekki upp á íslenskt tal á efni sínu, þar sem íslenska talsetningin væri svo sannarlega til.
Þá benti hann á mikilvægi þess að varðveita íslenska tungu. Fjöldi fólks tók undir innlegg Jóhannesar.
Hey @disneyplus why would you sell subscriptions in a region (Iceland to be specific) without making the subtitles and audio for that region available? Why oh why? Iceland has dubbed Disney features and TV shows for decades. You own it, you have it. Please make it available.
— Jóhannes Haukur (@johanneshaukur) January 30, 2021
Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra brást við umræðunni með því að senda bréf til Bob Chapek, forstjóra Disney, þar sem hún skoraði á Disney+ að gera efnið aðgengilegt á íslensku.
Menntamálaráðherra barst svar frá Disney samsteypunni í byrjun febrúar. Þar tjáði Hans van Rijn, umsjónarmaður Disney+ á Norðurlöndunum, Lilju að málið væri í vinnslu. Vinsælar myndir á borð við Lion King, Toy Story, Frozen, Wall-E, Cars og Coco yrðu aðgengilegar á íslensku.
Hann taldi að vinnan tæki nokkra mánuði.
Að minnsta kosti tíu myndir aðgengilegar á íslensku
Margir glöddust yfir því í dag að sjá að minnsta kosti tíu myndir eru nú aðgengilegar með íslensku tali. Það eru myndirnar Aladdin, Ísöld, Herkúles, Moana, Incredibles, Zootropolis, Bílar, Ríó 2 og Epic, ásamt myndinni Soul sem lengi vel var eina myndin á veitunni sem var aðgengileg á íslensku.
Athygli vekur að þetta eru þó ekki þær myndir sem van Rijn taldi upp í svari sínu og því má ætla að fleiri myndir séu væntanlegar með íslensku tali á næstunni.
Fréttastofa hefur sent Disney+ fyrirspurn vegna málsins.