Þetta kom í ljós eftir rannsókn yfirvalda á raunverulegum áhrifum faraldursins í landinu öllu.
Nú er svo komið að Perú er í fyrsta sæti yfir fjölda dauðsfalla miðað við höfðatölu að mati Johns Hopkins háskólans. Fjöldi dauðsfalla stendur nú í 180 þúsund manns, en var áður en rannsóknin var gerð talinn vera rúmlega 69 þúsund.
Forsætisráðherra landsins, Violeta Bermudez, tilkynnti um breytinguna sem hún sagði hafa verið gerða eftir nána yfirferð innlendra- og erlendra sérfræðinga.
Áður var Ungverjaland í fyrsta sæti yfir fjölda dauðsfalla miðað við höfðatölu en nú er staðan þannig að í Perú hafa rúmlega 500 af hverjum hundrað þúsund Perúbúum dáið í faraldrinum.