Innlent

Út­­lendinga­­stofnun getur ekki hætt að senda til Grikk­lands

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Hælisleitendur mótmæla hjá Útlendingastofnun árið 2019.
Hælisleitendur mótmæla hjá Útlendingastofnun árið 2019. mynd/vilhelm

Út­lendinga­stofnun telur sig al­gjör­lega bundna af gildandi lögum sem hún fylgir í máli Palestínu­mannanna fjór­tán sem voru sviptir allri þjónustu stofnunarinnar, hús­næði og fæði. Hún geti ekki tekið mál ein­stak­linganna til efnis­legrar með­ferðar því þeir hafi hlotið vernd í Grikk­landi og staða faraldursins þar sé ekki nægileg ástæða til.

Frá­vísanir Út­lendinga­stofnunar til Grikk­lands hafa lengi verið um­deildar; fjöldi mót­mæla­funda hefur farið fram á síðustu árum og hefur Rauði krossinn í­trekað for­dæmt frá­vísanirnar, nú síðast í byrjun mánaðarins. Í yfir­lýsingu segja sam­tökin endur­sendingar fólks til Grikk­lands „ekki for­svaran­legar við nú­verandi að­stæður“, það er í miðjum heims­far­aldri.

Í mars á síðasta ári á­kvað Út­lendinga­stofnun að hætta að vísa ein­stak­lingum til á­kveðinna landa vegna heims­far­aldursins, þar á meðal Grikk­lands. Í ágúst í fyrra fór síðan fram endur­mat á þessari á­kvörðun og í kjöl­farið á­kveðið að byrja aftur að senda þá sem höfðu fengið al­þjóð­lega vernd í Grikk­landi til baka án þess að veita þeim efnis­lega með­ferð.

En hvað breyttist í milli­tíðinni? Grikk­land tókst vel á við fyrstu bylgju far­aldursins síðasta vor og greindust til­tölu­lega fáir þar í landi með veiruna miðað við aðrar Evrópu­þjóðir. Í ágúst hófst hins vegar ný bylgja sem fór hægt stig­magnandi og varð mun verri en sú fyrra. Það sama gerðist svo í byrjun þessa árs og greindust til að mynda 2.402 smitaðir í landinu í fyrradag sam­kvæmt gögnum Worldo­meter.

Vissu lítið um faraldurinn

Vísir ræddi við sviðs­stjóra verndar­sviðs Út­lendinga­stofnunar, Írisi Kristins­dóttur, og upp­lýsinga­full­trúa stofnunarinnar, Þór­hildi Haga­lín, um þessi mál í gær.

Íris segir upp­runa­legu á­kvörðunina um að senda fólk ekki til Grikk­lands í far­aldrinum hafa grund­vallast á mikilli ó­vissu um bæði veiruna sjálfa og á­hrif hennar á heil­brigðis­kerfi Evrópu­ríkja. „Síðan líða mánuðirnir og við vitum meira um hvað Co­vid er og hvaða á­hrif það hefur á löndin í kring um okkur og þar á meðal Grikk­land.“

Íris Kristinsdóttir, sviðsstjóri verndarsviðs hjá Útlendingastofnun.aðsend

Hún segir að við það mat hafi aðal­lega verið stuðst við al­þjóð­legar skýrslur og rann­sóknir. Spurð hvort þeim þyki staðan í heil­brigðis­kerfi Grikk­lands í far­aldrinum góð segir Þór­hildur: „Það er alla­vega mat stofnunarinnar að á þessum tíma að Co­vid eitt og sér væri ekki nægjan­legt til að ein­stak­lingur fengi mál sitt tekið til efnis­legrar máls­með­ferðar. Það þyrfti eitt­hvað meira að koma til en bara þessi þáttur.“

En var ekki til­efni til að endur­skoða þetta þegar til­fellum fór að fjölga svo mjög í Grikk­landi?

„Á­kvarðanirnar eru alltaf í stöðugri endur­skoðun hjá okkur. Alla­vega hefur það ekki verið niður­staða stofnunarinnar að fjöldi til­fella hafi haft ein­hver á­hrif eins og staðan er núna,“ svarar Íris. Hún bendir á að bólu­setningar í Grikk­landi séu komnar af stað og segir heil­brigðis­kerfið enn sem komið er hafa staðið far­aldurinn af sér.

Inntar eftir við­brögðum við yfir­lýsingu Rauða krossins þar sem sam­tökin leggjast gegn öllum endur­sendingum til Grikk­lands segir Íris: „Það er kannski ekkert nýtt að Rauði krossinn leggist gegn frá­vísunum til Grikk­lands. Hann hefur verið á móti þeim í mörg ár.

En þetta er að sjálf­sögðu sjónar­mið sem Rauði krossinn er með og það er enginn að halda því fram að Grikk­land sé besta landið í Evrópu til að vera í. En matið í þessum málum er þannig að þau séu ekki þess eðlis að ein­staklingarnir eigi að fá efnis­lega máls­með­ferð á Ís­landi.“

Á­stæða þess að fólkið á ekki að fá efnis­lega máls­með­ferð á Ís­landi er sú að það hefur þegar hlotið al­þjóð­lega vernd í Grikk­landi og staða þeirra sem flótta­menn verið viður­kennd. Það er vegna of­sókna eða á­taka í þeirra heima­landi. Þór­hildur segir að þegar búið sé að viður­kenna ein­hvern sem flótta­mann annars staðar sé „erfitt í neyðar­kerfi að skil­greina þig aftur sem flótta­mann því kerfið á að vera fyrir þá sem eru í brýnustu neyð.“

Þórhildur Ósk Hagalín, upplýsingafulltrúi Útlendingastofnunar.aðsend

Hún segir þannig að flótta­manna­staðan í Grikk­landi veiti mönnum nokkur réttindi, til dæmis geti menn fengið þar at­vinnu og njóti ferða­frelsis í Evrópu.

Spurðar hvort þeim þyki ekkert til­efni til að endur­skoða fram­kvæmdina í þessum málum vegna mót­mæla fólks gegn frá­vísunum til Grikk­lands, yfir­lýsinga Rauða krossins og þeirrar stað­reyndar að fjór­tán Palestínu­menn vilji frekar búa á götunni hér á Ís­landi heldur en í Grikk­landi segjast þær ekki vilja taka af­stöðu til þess. Það sé Al­þingis eða ráðu­neytisins að breyta reglu­verkinu, sem Út­lendinga­stofnun fylgir eftir.

Getur stofnunin sem sagt ekki bara tekið á­kvörðun um að veita öllum sem koma frá Grikk­landi efnis­lega máls­með­ferð?

„Nei, í raun og veru ekki. Því lögin segja að ef þú hefur hlotið al­þjóð­lega vernd í öðru landi ber stofnunni ekki að fjalla efnis­lega um málið nema að sér­stakar á­stæður eða sér­stök tengsl eigi við. Og ef að það á ekki við þá segja lögin í raun að við getum ekki tekið þessi mál til efnis­legrar máls­með­ferðar,“ svarar Íris.

Engin óskastaða

Að­stæður Palestínu­mannanna fjór­tán eru ein­stakar og hafa sam­bæri­leg mál aldrei komið upp. Í venju­legu ár­ferði hefði þeim verið vísað úr landi og fylgt í flug­vél af lög­reglu ef þeir hefðu ekki farið sjálf­viljugir. Nú krefst far­aldurinn þess hins vegar að þeir fari í sýna­töku við Co­vid-19 áður en þeir fá að stíga upp í flug­vélina. Þeir hafa ekki leyft yfir­völdum að taka úr sér sýni.

Við­brögð Út­lendinga­stofnunar við þessu var að svipta þá allri þjónustu, svo sem hús­næði og fæði. Spurðar hvort þeim þyki þetta harka­legar að­gerðir hjá stofnuninni segir Þór­hildur: „Þetta er alla­vega engin óska­staða, það er alveg á hreinu.

Kerfið okkar er þannig upp­byggt að ein­staklingar njóta alla jafna þjónustu Út­lendinga­stofnunar þangað til þeir eru fluttir úr landi – og þannig myndum við vilja hafa það. En það breytir ekki niður­stöðunni sem fyrir liggur í málinu um að þeim beri að fara. Þannig að með því að neita því að fara í prófið eru þeir að koma sér undan þeirri fram­kvæmd. Þannig það hefur þessar af­leiðingar, því miður.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×