Sport

Pirruð Williams: Ég get ekki stjórnað guði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Venus Williams var ekki sátt með vindinn og ekki sátt með dómarann.
Venus Williams var ekki sátt með vindinn og ekki sátt með dómarann. Getty/Oscar J. Barroso

Það gekk lítið upp hjá tenniskonunni Venus Williams á móti í Parma og pirringur hennar kom út með sérstökum hætti.

Venus Williams, sem er eldri systir Serenu, datt þarna út á móti hinni slóvakísku Önnu Karolinu Schmiedlovu.

Venus tókst reyndar að vinna fyrstu lotuna þrátt fyrir að lenda 5-2 undir en Schmiedlova vann síðan næstu tvær lotur og tryggði sér sigurinn 5-7, 6-2 og 6-2.

Hin fertuga Venus fékk dæmda á sig leiktöf þegar vindhviður voru eitthvað að trufla hana. Það sem hún sagði þá við dómarann komst í heimsfréttirnar.

„Það sem ég er að segja við þig að vindurinn blæs og það er ekkert sem ég get gert við því,“ sagði Venus Williams.

„Ég get ekki stjórnað guði, talaðu við hann,“ sagði Venus og benti einum fingri upp til himins.

Þetta var í fjórða sinn í röð sem Venus tapar á móti Schmiedlovu en leikurinn tók tvo klukkutíma og 39 mínútur.

Serena, systir Vensusar, vann á sama tíma ítalska táninginn Lisu Pigato 6-3 og 6-2. Pigato fæddist tveimur vikum áður en hin 39 ára gamla Williams vann sinn sjötta risatitil árið 2003.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×