Erlent

Bandaríkjaforseti lýsir yfir stuðningi við vopnahlé á Gasa

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Sprengjum rignir á Gasa.
Sprengjum rignir á Gasa. epa/Mohammed Saber

Joe Biden Bandaríkjaforseti lýsti því yfir í nótt að hann styðji kröfur um vopnahlé á Gasa-svæðinu þar sem ísraelski herinn hefur nú látið sprengjum rigna yfir íbúðabyggð í átta daga og Hamas-liðar hafa sent eldflaugar yfir til Ísraels á móti.

Biden er sagður hafa rætt við Benjamín Netanjahú forsætisráðherra Ísraela og greint honum frá því að Bandaríkjamenn ásamt Egyptum og fleiri þjóðum væru nú að vinna að því að koma á slíku hléi. 

Bandaríkjamenn beittu hinsvegar enn og aftur neitunarvaldi sínu í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og stöðvuðu yfirlýsingu þess efnis að átökunum skyldi hætt tafarlaust. 

Öryggisráðið ætlar þó að funda aftur um málið í dag. 

Ísraelar héldu árásum sínum áfram í nótt og var tugum flugskeyta skotið á Gasa, sem er eitt þéttbýlasta svæði jarðar. 

Tala látinna á þessari rúmu viku stendur nú í 212 manns og þar af eru um 100 konur og börn. 

Í Ísrael hafa tíu einstaklingar látið lífið af völdum eldflauga Hamas, þar af tvö börn. 

Biden segist í yfirlýsingu hafa hvatt Ísraela til að gera allt til að vernda líf saklausra borgara á Gasa en í gær urðu skrifstofur Rauða hálfmánans á Gasa meðal annars fyrir sprengjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×